Enski boltinn

Guardiola hissa á ummælum Solskjær: „Hef aldrei sagt mönnum að brjóta til þess að refsa“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ole Gunnar Solskjær og Pep Guardiola mætast í kvöld
Ole Gunnar Solskjær og Pep Guardiola mætast í kvöld vísir/getty
Í kvöld fer fram stórleikur og grannaslagur í Manchesterborg þar sem Manchester United og Manchester City mætast á Old Trafford.

Leikurinn er stór fyrir bæði lið en þetta er algjör lykilleikur í titilbaráttunni fyrir Manchester City. Merki um það var að það var fast skotið á báðum blaðamannafundum knattspyrnustjóranna fyrir leikinn.

Í gærmorgun hélt Ole Gunnar Solskjær sinn blaðamannafund og á honum sagði hann meðal annars að „það verða brot. Þeir munu fara í ökklana og hælana á ykkur og sparka í ykkur.“

Guardiola var spurður út í þessa athugasemd Solskjær á sínum blaðamannafundi og var hann nokkuð hissa á orðum Norðmannsins.

„Sagði hann það? Með 65 eða 70 prósent af boltanum, hvernig förum við að því?“ skaut Guardiola.

„Mér líka ekki þessi ummæli. Ég byggi liðið mitt ekki upp á þessu, alls ekki.“

Tölfræðin er alls ekki með Solskjær í liði í þessu máli. Samkvæmt gögnum tölfræðifyrirtækisins Opta hefur City fengið á sig 170 aukaspyrnur inni á vallarhelmingi andstæðingsins í vetur. United hefur fengið 195.

Leikmenn City hafa fengið 38 gul og eitt rautt spjald í deildinni í vetur, United 64 gul og fjögur rauð.

„Á tíu tímabilum sem stjóri hef ég aldrei farið inn í leik og undirbúið hann með þetta efst í huga. Aldrei,“ hélt Guardiola áfram.

„Í fótbolta brýtur þú stundum af þér því leikurinn er hraður. En ég hef aldrei sagt leikmönnum mínúm að brjóta til þess að refsa andstæðingi eða loka á hann.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×