Enski boltinn

Solskjær: Held að Pogba verði áfram

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Norðmaðurinn tók við Manchester United nokkrum dögum fyrir jól.
Norðmaðurinn tók við Manchester United nokkrum dögum fyrir jól. vísir/getty
Ole Gunnar Solskjær heldur að Paul Pogba verði ennþá leikmaður Manchester United á næsta tímabili en gat þó ekki sagt það með fullri vissu.

Solskjær sat fyrir svörum blaðamanna í morgun og voru heitustu mál fundarins mál Paul Pogba og David de Gea.

Pogba hefur ítrekað verið orðaður frá Manchester United, eftir að Jose Mourinho var rekinn duttu þær sögusagnir niður en nú eru þær farnar að heyrast hærra á ný í ljósi þess að United er líklegt til þess að missa af Meistaradeildarsæti.

„Ég held hann verði hér áfram á næsta tímabili,“ sagði Solskjær á blaðamannafundinum.

„Paul hefur verið frábær fyrir okkur. Við viljum að hann geri vel og hann er leiðtogi inn í búningsherberginu.“

„Ef ég gæti fullvissað ykkur um það að hann yrði áfram myndi ég segja það, en það er ekki hægt. Ég held samt hann verði hér.“

David de Gea hefur fengið mikla gagnrýni síðustu daga og vikur fyrir endurtekin mistök í marki Manchester United. Fyrrum markmaður United, Gary Bailey, sagði á dögunum að de Gea ætti að vera bekkjaður í stórleiknum gegn Chelsea á Old Trafford um helgina.

Solskjær var ekki lengi að skjóta þeirri hugmynd niður.

„Nei. Ég treysti honum,“ sagði Norðmaðurinn.

„Hann er besti leikmaðurinn sem við höfum haft síðustu sex, sjö ár. Hann verður í góðu lagi.“

Leikur Manchester United og Chelsea er stórleikur í baráttunni um fjórða sætið. Hann hefst klukkan 15:30 á sunnudag og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×