Enski boltinn

Þrjú af stóru liðunum á Englandi vilja ráða manninn sem fann Mane og Alli

Anton Ingi Leifsson skrifar
Paul Mitchell á stóran þátt í uppgangi Sadio Mane.
Paul Mitchell á stóran þátt í uppgangi Sadio Mane. vísir/getty
Manchester United, Arsenal og Chelsea eru öll sögð á höttunum eftir Paul Mitchell, starfsmanni RB Leipzig í Þýskalandi, en þau vilja gera hann að yfirmanni knattspyrnumála.

Mitchell starfar nú í Þýskalandi þar sem hann hefur yfirumsjón með yngri leikmönnum félagsins og hefur einnig verið njósnari fyrir hönd félagsins. Hann hefur getið sér gott orð hjá félaginu.

Samkvæmt heimildum Sky Sports vilja risarnir þrír fá Mitchell til sín en Leipzig hefur nú þegar boðið honum rausnarlegan samning til ársins 2025. Honum hefur boðist stærra starf í Þýskalandi og ekki bara að fylgjast með ungu leikmönnum félagsins.

Þessi 38 ára gamli fyrrum varnarmaður Tottenham og Southampton átti stóran þátt í því að leikmenn eins og Sadio Mane, Dusan Tadic og Graziano Pelle komu til Southampton sem og þeir Toby Alderweireld, Dele Alli og Kieran Trippier til Tottenham.

Julian Nagelsmann, sem tekur við Leizpig í sumar, hefur greint stjórn félagsins grein fyrir því að það eigi að vera þeirra fyrsta verk að halda áðurnefndum Mitchell hjá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×