Enski boltinn

„Æðislegur“ Ramsey hreif stjórann

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ramsey fagnar markinu í gær.
Ramsey fagnar markinu í gær. vísir/getty
Unai Emery, stjóri Arsenal, var yfirsig hrifinn af frammistöðu Aaron Ramsey í gær er Arsenal vann 2-0 sigur á Napoli í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar.

Ramsey mun yfirgefa Arsenal í sumar og gengur í raðir Juventus en Wales-verjinn og Arsenal náðu ekki samkomulagi um nýjan samning. Emery var þó ánægður með miðjumanninn í gær.

„Æðisleg,“ sagði Emery er hann var spurður út í frammistöðu Ramsey. „Ég held að hann vilji gera eitthvað mikilvægt með okkur. Hann gefur allt sitt og ekki bara fyrir sjálfan sig heldur fyrir liðið.“

„Ég vil njóta augnabliksins með honum. Ég vil ná að afreka eitthvað mikilvægt með honum. Hans einbeiting er mikil núna og hann er einungis að hugsa um Arsenal.“

Ramsey skoraði fyrra mark Arsenal er hann skoraði eftir frábært liðsmark en Lucas Torreira skoraði svo annað markið tíu mínútum síðar. Arsenal fékk nóg af færum en náði ekki að skora fleiri mörk.

„Ég er 60 prósent ánægður. Við vissum að fyrri leikurinn væri mikilvægur í því að ná góðum úrslitum og skapa stemningu meðal stuðningsmannana. Við stýrðum leiknum.“

„Við fengum ekki mörg færi á okkur. Síðari hálfleikurinn var öðruvísi því þeir þrýstu meira á okkur og voru meira með boltann. Við vitum að þetta verður erfitt því þeir eru sterkir á heimavelli,“ sagði Emery.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×