Enski boltinn

Upphitun fyrir risa helgi í enska boltanum: Stórleikur á Anfield

Anton Ingi Leifsson skrifar
Það er stór umferð í enska boltanum um helgina en nú fer að líða að því að úrslitin ráðast á botni, í baráttunni um Meistaradeildarsæti og á toppi.

Tottenham og Huddersfield mætast í hádegisleiknum en Tottenham þarf ekkert nema þrjú stig í þeim leik. Tottenham er í fjórða sætinu með 64 stig í mikilli baráttu um Meistaradeildarsæti en Huddersfield er fallið.

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar hans í Everton hafa unnið þrjá leiki í röð en þeir heimsækja Fulham heim. Everton er í níunda sætinu en getur með hagstæðum úrslitum komist í sjöunda sætið.

Það verður Íslendingaslagur á Turf Moor er Jóhann Berg Guðmundsson og Aron Einar Gunnarsson mætast er Burnley og Cardiff mætast. Cardiff er í fallsæti en Burnley í því fimmtánda svo stigin þar eru mikilvæg. Sér í lagi fyri Cardiff.

Manchester United spilar svo síðasta leik dagsins en þeir mæta West Ham á heimavelli. United er þremur stigum á eftir Tottenham í fjórða sætinu og má United ekki tapa mikið fleiri stigum ætli þeir sér Meistaradeildarsæti á næstu leiktíð.

Það er svo súper sunnudagur framundan. Manchester City heimsækir Crystal Palace heim en City er í öðru sætinu, stigi á eftir Liverpool, en City á þó leik til góða.

Síðar um daginn er það svo stórleikur helgarinnar er Chelsea heimsækir Liverpool. Chelsea í baráttu um Meistaradeildarsæti á meðan Liverpool má ekki við mistökum í baráttu við feyknasterkt lið City.

Dagskrá sem og leiki helgarinnar má sjá hér að neðan en upphitunina fyrir leikina má sjá í sjónvarpsglugganum efst í greininni.

Leikir helgarinnar:

Laugardagur:

11.30 Tottenham - Huddersfield (Í beinni á Stöð 2 Sport)

14.00 Brighton - Bournemouth

14.00 Burnley - Cardiff

14.00 Fulham - Everton (Í beinni á Stöð 2 Sport)

14.00 Southampton - Wolves

16.30 Man. United - West Ham (Í beinni á Stöð 2 Sport)

Sunnudagur:

13.05 Crystal Palace - Man. City (Í beinni á Stöð 2 Sport)

15.30 Liverpool - Chelsea (Í beinni á Stöð 2 Sport)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×