Enski boltinn

Warnock: Aron dýfir sér ekki

Anton Ingi Leifsson skrifar
Warnock á hliðarlínunni í dag.
Warnock á hliðarlínunni í dag. vísir/getty
Neil Warnock, stjóri Cardiff, var enn á ný allt annað en sáttur með dómarana í leik Cardiff er liðið tapaði 2-0 fyrir Burnley á útivelli í gær.

Stigin voru mikilvæg enda Cardiff í bullandi fallbaráttu en á dögunum voru leikmenn Cardiff rændir stigum gegn Chelsea.

Warnock var ákærður eftir þann leik af enska sambandinu fyrir að láta vel valin orð falla í garð dómaranna í leikslok.

Þessi reynslumikli þjálfari er ekki hættur og heldur áfram að segja sína skoðun en honum fannst Cardiff hafa átt að fá eina, ef ekki tvær vítaspyrnur í gær.

„Ég hef enga skoðun á þessu. Ég hef hitt enska knattspyrnusambandið nú þegar þrisvar í þessari viku,“ sagði bálreiður Warnock í leikslok.

„Ég er mjög svekktur. Ég mun að sjálfsögðu spyrja dómaranna. Þeir sögðu að þetta hafi farið í hausinn á honum fyrst,“ sagði Warnock. Cardiff fékk víti en því var svo breytt.

„Við erum ósáttir að Gunnarsson fékk ekki vítaspyrnu eftir að hafa verið togaður niður. Hann dýfir sér ekki.“

Cardiff er í vandræðum í fallsæti en stjórinn reynslumikli hefur enn trú á sínum mönnum.

„Það er enn möguleiki. Ég er kannski brosandi en ég er ósáttur innra með mér.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×