Enski boltinn

„Það sem gerðist fyrir fimm árum skipti engu máli í dag“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Robertson og van Dijk hressir í dag.
Robertson og van Dijk hressir í dag. vísir/getty
Virgil van Dijk, varnarmaður Liverpool, var eðlilega ánægður með sigur Liverpool á Chelsea á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Sigurinn afar mikilvægur í toppbaráttunni hjá Liverpool en liðið er nú tveimur stigum á undan Manchester City sem á þó leik til góða.

Liverpool klúðraði titlinum gegn Chelsea á heimavelli fyrir fimm árum en varnarmaðurinn segir að þeir hafi ekki hugsað um það í dag.

„Það sem gerðist fyrir fimm árum skipti engu máli í dag. Þeir voru mjög vonsviknir þá en leikurinn í dag var allt annar leikur. Við sýndum frábæra takta í leiknum og við erum ánægðir með þrjú stig,“ sagði van Dijk.

Eden Hazard sýndi flotta takta í liði Chelsea í dag en van Dijk segir að hann hafi gaman af því að spila gegn þeim bestu.

„Mér líkar vel við að spila gegn bestu leikmönnum í heimi og han er þar. Hann er frábær leikmaður. Chelsea er frábært lið en við náðum að setja þá undir pressu.“

Liverpool er tveimur stigum á undan City er Liverpool á fjóra leiki eftir í deildinni en City á fimm leiki eftir.

„Við einbeitum okkur bara að okkar leikjum. Við eigum erfiðan leik í Meistaradeildinni næst og svo til Cardiff sem verður erfitt. Ég er alltaf spenntur og ánægður er lið mitt vinnur en þetta getur breyst fljótt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×