Enski boltinn

Staða mála breyttist ekkert á toppnum eftir þessa umferð

Hjörvar Ólafsson skrifar
Pep Guardiola verður meistari ef City vinnur rest.
Pep Guardiola verður meistari ef City vinnur rest. vísir/getty
Störukeppni Liverpool og Manchester City á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla hélt áfram um nýliðna helgi. Manchester City vann nokkuð þægilegan sigur þegar liðið mætti Crystal Palace. Liverpool og Chelsea áttust síðan við í stórleik helgarinnar á Anfield.

Það er jafn víst og að sólin komi upp á morgnana að framlína Liverpool er skipuð þeim Roberto Firmino, Mohamed Salah og Sadio Mané séu þeir allir heilir og mikið er undir hjá Liverpool. Þeir tveir síðastnefndu skoruðu mörk Liverpool í 2-0 sigri Liverpool í leiknum.

Eftir markalausan fyrri hálfleik þar sem Chelsea beit vel frá sér gerðu Mané og Salah út um leikinn með fallegum mörkum sínum í upphafi síðari hálfleiks. Jordan Henderson sem leikið hefur í öðru hlutverki í síðustu leikjum Liverpool en framan af leiktíðinni var arkitektinn að fyrra marki Liverpool sem kom eftir laglega og vel útfærða sókn.

Henderson hefur leikið sem sóknartengiliður í leikjum Liverpool gegn Southampton í deildinni og Porto í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu og nú síðast í deildarleiknum gegn Chelsea í gær. Hann skoraði eitt þriggja marka Liverpool í sigrinum gegn Southampton og lagði upp annað eftir að hafa komið inn á sem varamaður í leiknum.

Fyrirliðinn var svo upphafsmaður að laglegri sókn Liverpool í seinna markinu á móti Porto og átti stoðsendinguna í markinu sem braut ísinn í sigrinum gegn Chelsea í gær. Henderson hefur legið undir harðri gagnrýni frá háværum hluta stuðningsmanna Liverpool fyrir að vera ekki nógu skapandi og leggja ekki nógu mikið til í sóknarleik liðsins.

Þar er hann oft borinn saman við Steven Gerrard sem lék um árabil í svipaðri stöðu og Henderson gerir en það að taka við hlutverki Gerrard hjá Liverpool eru ansi stórir skór að fylla. Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool sagði í samtali við fjölmiðla á dögunum að Henderson hefði í raun leikið út úr stöðu undir sinni stjórn og það hentaði honum betur að leika framarlega á miðjunni en sem djúpur og varnarsinnaður miðjumaður.

Haldi Henderson áfram að leggja sín lóð á vogarskálarnar í leiftrandi sóknarleik Liverpool eykur það líkurnar á að 19 ára bið félagsins eftir enska meistaratitlinum ljúki í lok maí. Manchester City lætur hins vegar engan bilbug á sér finna í titilvörn sinni og útlit er fyrir að það ráðist í lokaumferðinni hvort bikarinn endi í Liverpool eða Man­chester.

Tap Chelsea og sigrar Tottenham Hotspur og Manchester United í leikjum sínum breytir stöðunni í baráttunni um sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð. Tottenham Hotspur er nú í bestu stöðunni með sín 67 stig í þriðja sæti, Manchester United getur náð Chelsea, sem situr í fjórða sætinu með 66 stig, að stigum með sigri í þeim leik sem liðið á til góða á Chelsea og Arsenal getur jafnað Chelsea að stigum leggi það liðið að velli í lokaleik umferðarinnar gegn Watford í kvöld.

Líkt og toppbaráttan mun það að öllum líkindum ráðast á lokaandartökum deildarkeppninnar hvaða lið fylgja Liverpool og Manchester City í Meistaradeildina á næsta keppnistímabili. Það er mikið undir fjárhagslega fyrir liðin og taugarnar verða þandar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×