Enski boltinn

Nýjasta vonarstjarna Barcelona íhugaði að ganga í raðir Tottenham síðasta sumar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Frenkie fyrir leik Ajax á dögunum.
Frenkie fyrir leik Ajax á dögunum.
Miðjumaðurinn, Frenkie De Jong, segir að hann hafi verið nálægt því að ganga í raðir Tottenham síðasta sumar en Frenkie er einn efnilegasti leikmaður heims.

Hann gengur í raðir Barcelona næsta sumar frá Ajax en hann var seldur fyrir 65 milljónir punda. Þar skrifar hann undir fimm ára samning en síðasta sumar íhugaði hann tilboð frá Tottenham.

„Ég velti fyrir mér tilboði Tottenham vel og lengi. Tottenham er stöðugur klúbbur sem er alltaf að verða betri,“ sagði Hollendingurinn í samtlai við FourFourTwo.

„Þeir gefa ungum leikmönnum tækifæri og mér finnst Pochettino stjóri sem bætir unga leikmenn. Mér líkar vel við hvernig þeir spila og ég held að það hafi hentað mér vel.“

Það hefur gengið eins og í sögu hjá Ajax í Meistaradeildinni þetta tímabilið því liðið er komið í átta liða úrslitin eftir að hafa slegið út Real Madrid. Frenkie segir að tímapunkturinn hafi ekki verið réttur til þess að yfirgefa Ajax síðasta sumar.

„Þetta var ekki rétti tímapunkturinn. Ég var ekki búinn hjá Ajax þar sem ég hafði ekki spilað fullt tímabil í minni stöðu. Ég var einnig meiddur á þessum tímapunkti svo ég hugsaði: Ekki strax. Ég vildi vera eitt ár lengur hjá Ajax, að minnsta kosti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×