Enski boltinn

Liverpool með fleiri stig í dag en Man. United náði allt þrennutímabilið sögulega

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þrennulið Manchester frá 1998-99.
Þrennulið Manchester frá 1998-99. Vísir/getty
Frábært gengi Liverpool í vetur væri búið að tryggja liðinu Englandsmeistaratitilinn á flestum öðrum tímabilum. Þökk sé Manchester City þá þarf miklu meira en 90 stig til að tryggja sér enska meistaratitilinn í ár.

Það er mjög sérstakt að Liverpool liðið sé komið með 82 stig eftir 33 leiki en sé um leið langt frá því að vera búið að tryggja sér enska meistaratitilinn. Leicester City vann sem dæmi á 81 stigi tímabilið 2015-16.  

Stuðningsmenn Manchester United eru afar stoltir af tímabilinu 1998-99 og hafa líka fullan rétt til þess. United menn unnu þá sögulega þrennu, urðu Englandsmeistarar, enskir bikarmeistarar og unnu á endanum Meistaradeildina með eftirminnilegum hætti í Barcelona

Það sem er stórmerkilegt við sigur Manchester United í ensku deildinni 1998-99 að þá fékk liðið samtals „aðeins“ 79 stig úr 38 leikjum.





Þetta tímabil vann Manchester United 22 leiki og gerði þrettán jafntefli. Þrír leikir töpuðu en þeir voru á móti Arsenal (2. sæti), Sheffield Wednesday (12. sæti) og Middlesbrough (9. sæti). Síðasta tapið kom aftur á móti 19. desember og United liðið tapaði því ekki deildarleik eftir jól.

Liverpool á enn fimm leiki eftir og er samt komið með þremur stigum meira en United náði á þessu sögulega tímabili fyrir tuttugu árum síðan. Liverpool hefur þegar unnið þrjá fleiri leiki en er að gera minna að jafnteflum (7) og hefur aðeins tapað einum leik. Það tap kom á útivelli á móti Manchester City í janúarbyrjun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×