Erlent

Þingmenn bálreiðir út í May

Gunnar Reynir Valþórsson og Samúel Karl Ólason skrifa
Þingmenn hafa ekki tekið vel í ræðu May í gær.
Þingmenn hafa ekki tekið vel í ræðu May í gær. AP/Jonathan Brady
Theresa May forsætisráðherra Breta situr nú undir harðri gagnrýni, ekki síst frá hennar eigin flokksmönnum, eftir ræðu sem hún flutti til bresku þjóðarinnar í gærkvöldi. Þar sagðist hún standa með almenningi og ekki þýddi að kenna henni um hvernig farið sé fyrir Brexit málinu, heldur lægi sökin algerlega hjá þingmönnum.

Þingmenn hafa tekið þessi orð afar óstinnt upp og sumir kalla nú eftir afsögn hennar.

Í Guardian er haft eftir einum þingmanni að mögulega sé það rétt hjá May að sökin liggi hjá þinginu, en það þýði ekki að hún geti sagt það opinberlega. Annar þingmaður segir að hún hafi með ræðu sinni hagað sér eins og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.



May er nú í Brussel þar sem hún mun reyna að fá fresti á úrgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu til 30. júní. Að öllu óbreyttu á Brexit að eiga sér stað á föstudaginn í næstu viku, 29. mars. Gerist það mun Bretland ganga úr ESB án samnings. Philip Hammond, fjármálaráðherra, varaði við því á dögunum að Brexit án samnings muni leiða til umtalsverðra vandræða í Bretlandi eins og hærra atvinnuleysi, lægri launa og hærra verðlags.

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, mun einnig fara til Brussel í dag og ræða við forsvarsmenn ESB um aðra möguleika en Brexit-samning May. BBC hefur eftir Corbyn að May sé í algerri afneitun varðandi alvarleika stöðunnar sem Bretland sé í og hún geti ekki verið sá leiðtogi sem Bretland þurfi á að halda.



Donald Tusk, forseti Evrópuráðsins, sagði í morgun að hann teldi að ESB myndi sættast á stutta frestun Brexit en eingöngu ef breskir þingmenn samþykki samning May í næstu viku. Hægt yrði að kalla til neyðar-leiðtogafundar ESB þá ef það reyndist nauðsynlegt.

Nicola Sturgeon, forsætisráðherra Skotlands, kallaði í morgun eftir því að May boðaði til nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu um Brexit.

 


Tengdar fréttir

Bannar atkvæðagreiðslu um óbreyttan Brexit-samning

Forseti fulltrúadeildar breska þingsins, John Bercow, hefur úrskurðað að ekki verði greidd atkvæði um Brexit-samninginn að nýju fyrr en að gerðar hafa verið breytingar á efni hans.

Enn óvissa með fiskútflutning vegna Brexit

Framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi segir nokkurri óvissu eytt með bráðabirgðasamkomulagi íslenskra stjórnvalda við Breta um tollfrjálsan innflutning á sjávarafurðum eftir Brexit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×