Erlent

May varpar á­byrgðinni á breskan þing­heim

Atli Ísleifsson skrifar
Theresa May ávarpaði þjóð sína fyrr í kvöld.
Theresa May ávarpaði þjóð sína fyrr í kvöld. EPA
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, segist hafa fullan skilning á því að almenningur í Bretlandi hafi fengið sig fullsaddan vegna deilna um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu .„Ég er með ykkur í liði,“ sagði May í kvöld.

May ávarpaði þjóð sína frá Downingstræti fyrr í kvöld þar sem hún varpaði ábyrgðinni á herðar þingmanna að enn hafi ekki tekist að leysa úr málum er varða útgönguna. Sagði hún að það væri komið að ögurstund – stjórnmálamenn verði nú að taka ákvörðun um næstu skref.

Fyrr í dag óskaði May formlega eftir því að útgöngu Bretlands verði frestað þar sem breskur þingheimur hefur enn ekki samþykkt útgöngusáttmála bresku stjórnarinnar og ESB. Miðað hefur verið við að Bretland gangi úr sambandinu þann 29. mars næstkomandi en May óskaði í dag eftir að dagsetningunni yrði frestað um þrjá mánuði eða til 30. júní.

May sagði í ávarpi í kvöld sínu að frestunin væri „mikill, persónulegur harmur“ fyrir sig sjálfa. Hún útilokaði jafnframt að boðað yrði til nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu. Sagði hún bresku þjóðina þegar hafa sagt sína skoðun.

Heldur til Brussel

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, segir að sambandið gæti samþykkt að útganga Bretlands frestist um skemmri tíma, gegn því að breska þingið samþykki útgöngusáttmálann í næstu viku.

May heldur til Brussel í fyrramálið þar sem hún mun funda með öðrum leiðtogum aðildarríkjanna. Má búast við að málefni Brexit verði fyrsta mál á dagskrá.

Sjá má ávarp May að neðan.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×