Erlent

Mistókst naumlega að taka við stjórn Brexit-skútunnar

Samúel Karl Ólason skrifar
Theresa May í þinginu í gærkvöldi.
Theresa May í þinginu í gærkvöldi. AP/Mark Duffy
Bresku stjórnarandstöðunni mistókst naumlega að fá í gegn tillögu um að þingið myndi taka stjórn á viðræðunum um úrgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. 314 þingmenn greiddu atkvæði gegn tillögu þar að lútandi og 312 greiddu atkvæði með henni. Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins lagði tillöguna fram.

Áður hafði mikill meirihluti breskra þingmanna greitt atkvæði gegn því að halda aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um Brexit. 334 þingmenn greiddu atkvæði gegn tillögunni og 85 greiddu atkvæði með henni.

Í gær útilokaði þingið að fara úr ESB án samnings.

Fulltrúar Evrópusambandsins hafa gefið til kynna að þeir séu ekki til frekari viðræðna um breytingar á útgöngusamningnum sem breskir þingmenn hafa í tvígang hafnað með afgerandi meirihluta.

Uppfært: Þingmenn hafa nú samþykkt með miklum meirihluta að fresta Brexit til 30. júní. Til þess þarf þó samþykki forsvarsmanna ESB. Þeir samþykktu einnig að gefa Theresu May tækifæri til að reyna að koma Brexit samningi sínum í gegnum þingið í þriðja sinn. Sú atkvæðagreiðsla fer fram í næstu viku.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×