Erlent

Ákærurnar gegn Jussie Smollett felldar niður

Birgir Olgeirsson og Samúel Karl Ólason skrifa
Jussie Smollett.
Jussie Smollett. AP/Ashlee Rezin

Allar ákærur gegn leikaranum Jussie Smollett hafa verið felldar niður. Lögmenn hans lýstu því yfir fyrir skömmu. Smollett mun hafa verið hreinsaður alfarið af sök og samkvæmt CBS Chicago, féllst dómari á að innsigla málið.



Talskona Smollett segir almenning hafa verið of fljótan að dæma Smollett. Hann sé fórnarlamb tveggja manna sem réðust á hann þann 29. janúar og í senn fórnarlamb almenningsálits. Hún segir mál Smollett til marks um það að rangt sé að reyna að sanna mál í „dómstóli almenningsálitsins“.



„Jussie er létt yfir því að þessu ástandi sé nú lokið og hlakkar mikið til þess að líta fram á veginn og einblína á fjölskyldu sína, vini og feril,“ sagði Anne Kavanaugh.



Í yfirlýsingu frá skrifstofu saksóknara í Cooksýslu, þar sem mál Smollett var til meðferðar, segir að eftir að hafa skoðað málið ítarlega, tekið tillit til samfélagsþjónustu Smollett og samkomulags um að hann myndi gefa eftir þá tíu þúsund dali sem hann greiddi í tryggingu til Chicago-borgar, sé talið að sanngjörn lausn sé komin í málið.



Greint var frá því í lok janúar að ráðist hefði verið á Smollett, sem leikur eitt af aðalhlutverkunum í þáttaröðinni Empire, í Chicago og talið að um hatursglæp væri að ræða. Smollett er samkynhneigður. Voru mennirnir sagðir hafa hellt klór yfir Smollett til að valda honum enn meiri skaða. Hann hélt því einnig fram að einn mannanna hefði verið með rauða derhúfu og þeir hafi hreytt illyrðum í hann, barið hann og sett snöru um háls hans.



Þegar rannsókn málsins var komin vel á veg greindu fjölmiðlar vestanhafs frá því að talið væri árásin hefði verið sett á svið og að Smollett hefði greitt tveimur mönnum fyrir að ráðast á hann.



Hann var svo sagður hafa sett árásina á svið og ákærður fyrir að ljúga að lögreglu. Ákæruliðirnir lagðir fram á hendur Smollett voru sextán talsins. Hann var sakaður um að hafa greitt bræðrunum Ola og Abel Osundairo fyrir að sviðsetja árásina. Markmiðið hafi verið að bæta feril hans.



Fréttin verður uppfærð.


Tengdar fréttir

Empire-leikarinn með stöðu grunaðs manns

Lögregla í Chicago hefur staðfest að leikarinn Jussie Smollett sé nú formlega með stöðu grunaðs manns í sakamálarannsókn, en hann er grunaður um að hafa logið að lögreglu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×