Erlent

Empire-leikarinn sviðsetti árásina vegna ófullnægjandi launa

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Smollett gaf sig fram við lögreglu snemma í morgun og er nú í haldi.
Smollett gaf sig fram við lögreglu snemma í morgun og er nú í haldi. AP/Lögreglan í Chicago

Bandaríski leikarinn Jussie Smollett sviðsetti líkamsárás sem hann sagðist hafa orðið fyrir í lok janúar, að því er fram kom á blaðamannafundi lögreglu í Chicago í Bandaríkjunum í dag. Smollett er sagður hafa sett árásina á svið vegna þess að hann var óánægður með laun sín en hann er þekktastur fyrir leik í sjónvarpsþáttunum Empire.

Árásin hefur verið nær stöðugt til umfjöllunar í fjölmiðlum vestanhafs síðustu þrjár vikur. Smollett hélt því fram að tveir einstaklingar hefðu ráðist á hann og haft uppi fordómafull ummæli sem sneru að kynþætti og kynhneigð hans, en hann er dökkur á hörund og samkynhneigður. Þá sagði Smollett árásarmennina hafa hrópað slagorð, „MAGA“ [Make America Great Again].

Sjá einnig: Niðurbrotinn eftir að hafa verið sakaður um að greiða mönnum fyrir að sviðsetja árás á sig

Eddie Johnson lögreglustjóri hjá lögreglunni í Chicago sagði á blaðamannafundi vegna málsins í dag að Smollett hefði misnotað sársaukann sem fylgir kynþáttafordómum, sér og starfsferli sínum til framdráttar.

Lögreglustjórinn Eddie Johnson á blaðamannafundinum í dag. Vísir/AP

Johnson var harðorður í garð leikarans á blaðamannafundinum og krafðist þess að hann bæði Chicago-borg afsökunar. Þá gæti athæfið haft áhrif á raunveruleg fórnarlömb hatursglæpa og fælt þau frá því að stíga fram.

Smollett hefur verið ákærður fyrir að hafa logið að lögreglu en hann er grunaður um að hafa greitt nígerískum bræðrum 3.500 Bandaríkjadali, eða um 400 þúsund íslenskar krónur, fyrir að ráðast á sig. Þá stóð hann sjálfur að sendingu bréfs, lituðu kynþáttafordómum, sem hann tjáði lögreglu að aðili tengdur árásinni hefði sent sér.

Smollett gaf sig fram við lögreglu snemma í morgun og er nú í haldi. Gert er ráð fyrir að hann verði leiddur fyrir dómara síðar í dag.

Fljótlega eftir að Smollett greindi frá árásinni vöknuðu efasemdaraddir um fullyrðingar hans, einkum vegna þess að hvorki fundust vitni að árásinni né upptökur úr öryggismyndavélum.

Í gær var svo greint frá því að Smollett hefði formlega réttarstöðu grunaðs manns í sakamálarannsókn, grunaður um að hafa logið að lögreglu.


Tengdar fréttir

Empire-leikarinn með stöðu grunaðs manns

Lögregla í Chicago hefur staðfest að leikarinn Jussie Smollett sé nú formlega með stöðu grunaðs manns í sakamálarannsókn, en hann er grunaður um að hafa logið að lögreglu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.