Enski boltinn

Sanchez trúir því enn að hann geti sannað sig hjá United

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Alexis Sanchez
Alexis Sanchez vísir/getty
Alexis Sanchez segist enn hafa fulla trú á því að hann geti sannað sig á Old Trafford og ætlar sér að vinna titla með félaginu.

Sílemaðurinn hefur ekki haft góðu gegni að fagna í liði Manchester United en hann kom þangað frá Arsenal í janúar 2018. Hann hefur aðeins náð að skora fimm mörk í 41 leik, en á þessu tímabili hafa meiðsli sett strik í reikninginn.

Sanchez verður líklega frá næsta mánuðinn vegna meiðsla á hné.

„Ég vil halda áfram að sýna ást mína á fótboltanum. Ég veit hvað ég get gert. Ég hef trú á mínum hæfileikum,“ sagði framherjinn við Inside United.

„United er svo mikilvægt félag, ekki bara á Englandi heldur á heimsvísu, og ég vil hjálpa til við að færa stuðningsmönnunum titla.“

„Þegar ég var yngri þá hélt ég með United. Ég vil færa stuðningsmönnunum gleði því auðvitað vil ég vinna.“

United missti líklega af besta tækifærinu til þess að vinna titil í vor þegar liðið féll út úr ensku bikarkeppninni á dögunum.

United er þó enn í Meistaradeild Evrópu þar sem liðið mætir Barcelona í 8-liða úrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×