Erlent

Trump óákveðinn um samkomulag í útgjaldadeilu

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump notaði lokun alríkisstofnana til að reyna að knýja á um fjárveitingu til landamæramúrs en án árangurs. Spurning er nú hvort hann vilji leggja í aðra atrennu óvinsælla lokana til að ná helsta kosningaloforði sínu.
Trump notaði lokun alríkisstofnana til að reyna að knýja á um fjárveitingu til landamæramúrs en án árangurs. Spurning er nú hvort hann vilji leggja í aðra atrennu óvinsælla lokana til að ná helsta kosningaloforði sínu. Vísir/EPA

Hvíta húsið segir að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi enn ekki gert upp hug sinn til samkomulags sem þingmenn repúblikana og demókrata hafa náð til að koma í veg fyrir að alríkisstofnunum verði lokað aftur eftir föstudaginn. Samkomulagið felur ekki í sér fjárveitingu til landamæramúrsins sem Trump lokaði stofnunum til að knýja á um.

Fjárheimildir hluta alríkisstofnana Bandaríkjanna renna út eftir föstudaginn 15. febrúar. Um fjórðungi ríkisstofnana var lokað í 35 daga í desember og janúar þegar Trump hótaði að beita neitunarvaldi gegn útgjaldafrumvörpum sem þingið hafði náð saman vegna kröfu hans um 5,7 milljarða dollara til framkvæmda við múr á landamærunum að Mexíkó.

Samkomulagið sem flokkarnir náðu í gærkvöldi felur í sér um 1,4 milljarða framlag til nýrra girðinga og hindrana á landamærunum, fjarri þeirri upphæð sem Trump vill í múrinn.  Það myndi hins vegar fjármagna rekstur ríkisstofnanna út þetta fjárlagaár sem endar 30. september.

Reuters-fréttastofan hefur eftir embættismanni í Hvíta húsinu að Trump hafi enn ekki ákveðið hvort að hann leggi blessun sína yfir samkomulagið. Mánaðarlöngu lokuninni lauk í síðasta mánuði þegar Trump lét undan og samþykkti bráðabirgðafrumvarp um fjármögnunum stofnananna til 15. febrúar.

Skoðanakannanir hafa bent til þess að almenningur kenni forsetanum helst um lokunina í síðasta mánuði. Margir repúblikanar eru sagðir ólmir að forðast það að til annarrar lokunar komi vegna kröfu forsetans um landamæramúr.


Tengdar fréttir

Demókratar og Repúblikanar komust að samkomulagi

Demókratar og Repúblikanar á Bandaríkjaþingi hafa komist að samkomulagi sem ætlað er að koma í veg fyrir lokun alríkisstofnana næstkomandi föstudag eins og stefndi í á nýjan leik.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.