Danska utanríkisráðuneytið hefur gefið grænt ljós á opnun bandarískrar ræðismannsskrifstofu í grænlensku höfuðborginni Nuuk.
Frá þessu segir á Sermitsiaq. Nú þegar samþykki utanríkisráðuneytisins liggur fyrir geta bandarísk stjórnvöld haldið áfram vinnu sinni varðandi opnunina.
„Eftir samkomulag við grænlensk stjórnvöld hefur utanríkisráðuneytið samþykkt beiðni Bandaríkjamanna um að koma upp ræðismannsskrifstofu í Nuuk,“ segir í svari danska utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Sermitsiaq.
Greint var frá hugmynd Bandaríkjastjórnar um opnun ræðismannskrifstofu á Grænlandi í ágúst síðastliðinn. Þá sagði Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, eftir fund með bandarískum starfsbróður sínum, Mike Pompeo, að ræðismannsskrifstofa myndi opna. Nú liggur hins vegar formlegt samþykki fyrir hendi.
Áhugi Bandaríkjastjórnar á Grænlandi hefur aukist mikið að undanförnu. Þannig var greint frá vangaveltum Donald Trump Bandaríkjaforseta að kaupa Grænland af Danmörku.Aflýsti hann heimsókn sinni til Danmerkur eftir að dönsk stjórnvöld lokuðu á allar slíkar hugmyndir.
Í frétt Sermitsiaq segir að Bandaríkjastjórn hafi áætlanir uppi um að tveir bandarískir embættismenn muni starfa við skrifstofuna, auk fimm staðarráðinna starfsmanna.
Þetta verður ekki í fyrsta sinn sem Bandaríkjamenn starfrækja ræðismannskrifstofu á Grænlandi, en þeir opnuðu slíkt árið 1940 eftir að nasistar hernámu Danmörk. Þeirri skrifstofu var hins vegar lokað árið 1953.
Íslendingar opnuðu aðalræðisskrifstofu í Nuuk í nóvember 2013.
Gefa grænt ljós á bandaríska ræðismannsskrifstofu á Grænlandi

Tengdar fréttir

Danir pirraðir eftir að Trump hætti við
Danskir stjórnmálamenn lýsa óánægju sinni með að Bandaríkjaforseti hafi hætt við heimsókn sína því að forsætisráðherra Dana vill ekki ræða sölu á Grænlandi. Forsætisráðherrann sagði ákvörðunina svekkjandi og óvænta.

Trump hyggst opna ræðismannsskrifstofu á Grænlandi innan árs
Trump stjórnin hyggst opna ræðismannsskrifstofu á Grænlandi en Bandaríkin hafa ekki haft viðveru þar í tugi ára.

Hættir við heimsókn til Danmerkur því hann fær ekki að kaupa Grænland
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, fær ekki að kaupa Grænland. Þess vegna hættir hann við opinbera heimsókn til Danmerkur