Erlent

Fjórði hlýjasti júlímánuðurinn frá upphafi mælinga

Kjartan Kjartansson skrifar
Evrópubúar hafa mátt þola mikinn hita í sumar.
Evrópubúar hafa mátt þola mikinn hita í sumar. Vísir/EPA

Meðalhiti jarðar í júlí var sá fjórði hæsti sem mælst hefur frá seinni hluta 19. aldar. Samkvæmt mælingum Haf- og loftslagsstofnunar Bandaríkjanna (NOAA) hefur hitinn í júlí verið yfir meðaltali í 42 ár í röð.

Fyrstu sjö mánuðir ársins voru jafnframt þeir fjórðu hlýjustu frá því að mælingar hófust upp úr 1880, að því er segir í frétt á vef NOAA. Níu af tíu hlýjustu júlímánuðunum hafa allir verið eftir árið 2005. Sá hlýjasti var árið 2016 þegar El niño-veðurfyrirbrigðið lagðist ofan á hnattræna hlýnun af völdum manna.

Alls hafa nú 403 mánuðir í röð verið yfir meðaltalshita 20. aldar.

Sums staðar var hitinn í júlí enn meiri en meðaltalið. Þannig voru hitamet slegin í Skandinavíu, Norður-Íshafinu, norðvesturhluta Afríku og í hluta sunnanverðrar Asíu. Í Evrópu var júlímánuður sá annar hlýjasti frá því að mælingar fyrir alla álfuna hófust árið 1910.

Á sama tíma var útbreiðsla hafíssins á norðurskautinu 13,2% minni en meðaltal áranna 1981-2010. Það er níunda minnsta útbreiðsla hans á þessum árstíma frá því að gervihnattamælingar hófust árið 1979.

Við Suðurskautslandið var útbreiðsla hafíssins aðeins undir meðaltali og sú áttunda minnsta í júlí frá upphafi mælinga.

Kort af jörðinni sem sýnir frávik frá meðalhita fyrstu sjö mánuði ársins. NOAA

Tengdar fréttir

Mesti hiti í 262 ár

Á meðan við hér uppi á Íslandi kvörtum yfir kulda og votviðri fárast frændur okkar í Svíþjóð yfir hita og rigningarleysi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.