Erlent

Kim og Moon funda í Pyongyang í september

Samúel Karl Ólason skrifar
Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, og Moon Jea-in, forsætisráðherra Suður-Kóreu, munu hittast í Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu í næsta mánuði.
Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, og Moon Jea-in, forsætisráðherra Suður-Kóreu, munu hittast í Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu í næsta mánuði. Vísir/AP

Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, og Moon Jea-in, forsætisráðherra Suður-Kóreu, munu hittast í Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu, í næsta mánuði. Þetta verður þriðji fundur leiðtoganna og í fyrsta sinn í rúman áratug sem slíkur fundur er haldinn í Pyongyang.

Moon og Kim hafa hist tvisvar sinnum áður, í apríl og í maí, og þá hitti Kim forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, í Singapúr í júní. Á þeim fundi skrifuðu Kim og Trump undir samkomulag varðandi kjarnorkuafvopnun Kóreuskagans. Síðan þá hafa Bandaríkin sakað Norður-Kóreu um að draga fæturna og Norður-Kórea hefur skammast út í Bandaríkin yfir því að viðskiptaþvinganir hafi ekki verið felldar niður.

Ríkisstjórn Norður-Kóreu hefur verið sökuð um að halda kjarnorkuvopna- og eldflaugaframleiðslu áfram, í trássi við samkomulagið í Singapúr.

Samkvæmt Yonhap fréttaveitunni komu embættismenn Norður- og Suður-Kóreu saman í dag og ræddu þeir meðal annars samvinnuverkefni ríkjanna sem hefðu verið sett í gang í kjölfar síðasta fundar Moon og Kim.

Miðað við yfirlýsingar sendinefndanna eru ríkin þó ekki sammála um hvenær halda eigi leiðtogafundinn. Ri Son Gwon, frá Norður-Kóreu, sagði blaðamönnum að búið væri að ákveða tiltekinn dag en hann vildi ekki segja hvaða dag. Cho Myoung-gyon, sameiningarráðherra Suður-Kóreu, sagði hins vegar að það væri ekki búið að velja dag.

Meðal þess sem Moon og Kim munu ræða þegar og ef þeir hittast í september er hvort þeir geti bundið enda á Kóreustríðið með formlegum hætti. Það hefur í rauninni staðið yfir frá 1950 þar sem samið var um vopnahlé árið 1953 en ekki frið. Norður-Kórea hefur kallað eftir því að friði verði lýst yfir sem fyrst. Bandaríkin vilja hins vegar að ríkisstjórn Norður-Kóreu sýni fram á að hún hafi gripið til markvissra aðgerða varðandi kjarnorkuafvopnun.
 


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.