Erlent

Telja Norður-Kóreu vinna að smíði nýrra eldflauga

Kjartan Kjartansson skrifar
Norður-Kóreumenn eru taldir halda áfram að framleiða langdrrægar eldflaugar á sama tíma og þeir ræða við Bandaríkin um afvopnun.
Norður-Kóreumenn eru taldir halda áfram að framleiða langdrrægar eldflaugar á sama tíma og þeir ræða við Bandaríkin um afvopnun. Vísir/EPA
Leyniþjónusta Bandaríkjanna telur sig hafa vísbendingar um að norður-kóresk stjórnvöld smíði nú nýjar eldflaugar í verksmiðju sem framleiddi fyrstu langdrægu eldflaugina sem getur náð til Bandaríkjanna. Skammt er síðan Trump Bandaríkjaforseti lýsti því yfir að ekki stafaði lengur kjarnorkuhætta af Norður-Kóreu.

Washington Post hefur eftir heimildarmönnum sínum að á meðal gagna leyniþjónustunnar séu gervihnattamyndir sem virðast sýna að unnið sé við að minnsta kosti eina og mögulega tvær langdrægar eldflaugar í stórri tilraunastöð nærri höfuðborginni Pjongjang.

Áður hafa bandarísk stjórnvöld talið sig hafa vitneskju um að Norður-Kóreumenn haldi áfram að auðga úran fyrir kjarnavopn.

Viðræður hafa staðið yfir á milli stjórnvalda í Pjongjang og Washington um afvopnun undanfarnar vikur og mánuði. Þær leiddu meðal annars til sögulegs leiðtogarfundar Trump og Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, í júní.

Trump lofaði árangurinn af þeim fundi og gekk svo langt að segja að ekki stafaði lengur hætta af kjarnavopnum Norður-Kóreu. Leiðtogarnir tveir sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu með fögrum fyrirheitum um afkjarnavopnun. Bandaríska dagblaðið segir hins vegar að Norður-Kóreumenn hafi lítið aðhafst sem bendi til þess að þeir ætli sér að láta frá sér kjarnavopn sín.


Tengdar fréttir

Mikilvæg mannvirki rifin í Norður-Kóreu

Gervihnattarmyndir sýna að yfirvöld Norður-Kóreu séu byrjuð að rífa hluta herstöðvar þar sem eldflaugum hefur verið skotið á loft og þær þróaðar.

Afhentu Bandaríkjamönnum líkamsleifar

Stjórnvöld í Pjongjang afhentu í nótt líkamsleifar sem taldar eru vera bandarískra hermanna sem féllu í Kóreustríðinu á sjötta áratug síðustu aldar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×