Erlent

Trump fékk nýtt bréf frá vini sínum í Norður-Kóreu

Samúel Karl Ólason skrifar
Kim Jong-Un (til hægri) og Donald Trump (til vinstri).
Kim Jong-Un (til hægri) og Donald Trump (til vinstri). Vísir/AP
Hvíta húsið hefur opinberað að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, barst nýtt bréf frá Kim Jong-Un, einræðisherra Norður-Kóreu. Það var gert í kjölfar þess að Trump tísti í nótt þar sem hann þakkaði Kim kumpánalega fyrir „indælt bréf“ og sagðist forsetinn „hlakka til þess“ að hitt Kim brátt.

Ekkert hefur verið sagt um hvað í bréfinu stóð að öðru leyti en að það hafi snúið að fundi þeirra Trump og Kim í Singapúr. Samkvæmt heimildum AP fréttaveitunnar innan Hvíta hússins hefur nýr fundur þeirra ekki verið skipulagður.



Í tístinu þakkar Trump Kim fyrir að senda líkamsleifar rúmlega 50 bandarískra hermanna sem féllu í Kóreustríðinu til Bandaríkjanna og segir það vera „ljúft“ af einræðisherranum sem hefur margsinnis verið sakaður um gífurlega umfangsmikil mannréttindabrot í Norður-Kóreu. Er um að ræða mikla breytingu frá því að Trump kallaði Kim meðal annars „stuttan og feitan“. Þá hefur Kim sagt Trump vera geðveikan.

Leyniþjónusta Bandaríkjanna telur sig hafa vísbendingar um að ríkisstjórn Kim vinni að smíði nýrra eldflauga. Það sé gert í sömu verksmiðju og framleiddi fyrstu langdrægu eldflaug ríkisins sem gæti verið skotið að meginlandi Bandaríkjanna. Áður hefur komið í ljós að Bandaríkin telji Norður-Kóreumenn halda áfram að auðga úran fyrir kjarnorkuvopn.

Sjá einnig: Telja Norður-Kóreu vinna að smíði nýrra eldflauga



Stjórnvöld Bandaríkjanna hafa haldið því fram að á fundi leiðtoganna hafi Kim samþykkt að láta kjarnorkuvopn sín af hendi og veita sérfræðingum og eftirlitsaðilum aðgang að ríkinu svo afvopnun gæti verið staðfest.

Ríkisstjórn Kim er þó ekki á þeim nótum að einræðisherrann hafi samþykkt að losa sig við kjarnorkuvopn sín. Í síðasta mánuði sakaði Norður-Kórea Bandaríkin um ribbaldaskap í kröfum sínum. Það gerðu þeir eftir að Pompeo yfirgaf Norður-Kóreu og sögðu forsvarsmenn einræðisríkisins að kröfur Pompeo hefðu ekki verið í anda fundarins í Singapúr. Ríkismiðill Norður-Kóreu gagnrýnd Pompeo harðlega fyrir að krefjast þess að ríkið losaði sig alfarið við kjarnorkuvopn.



Í kjölfar fundarins hefur Mike Pompeo, utanríkisráðherra Trump, kallað eftir því að viðskiptaþvingunum og refsiaðgerðum gegn Norður-Kóreu verði fylgt hart eftir og ekki verði látið af þrýstingi gagnvart Norður-Kóreu.


Tengdar fréttir

Mikilvæg mannvirki rifin í Norður-Kóreu

Gervihnattarmyndir sýna að yfirvöld Norður-Kóreu séu byrjuð að rífa hluta herstöðvar þar sem eldflaugum hefur verið skotið á loft og þær þróaðar.

Norðurkóreskir miðlar segja að þvingunum verði aflétt

Ríkisdagblað Norður-Kóreu segir frá fundi Donalds Trump og Kim Jong-un í hástemmdri og gagnrýnislausri umfjöllun. Miðillinn í mótsögn við Bandaríkjaforseta þegar kemur að afléttingu viðskiptaþvingana. Bandaríkjaforseti segir þó fundinn með leiðtoga Norður-Kóreu hafa verið áhugaverðan og jákvæða reynslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×