Erlent

Trump segir Kim elskaðan í Norður-Kóreu

Kjartan Kjartansson skrifar
Vel virtist fara á með Trump og Kim á fundi þeirra í Singapúr, betur en Trump og leiðtogum bandalagsríkja Bandaríkjanna á G7-fundinum um helgina.
Vel virtist fara á með Trump og Kim á fundi þeirra í Singapúr, betur en Trump og leiðtogum bandalagsríkja Bandaríkjanna á G7-fundinum um helgina. Vísir/EPA

Norður-Kórea elskar Kim Jong-un, einræðisherra landsins, og þjóðin er full ákafa. Þetta sagði Donald Trump Bandaríkjaforseti í sjónvarpsviðtali eftir fund hans og Kim í Singapúr. Löndin byrjuðu frá grunni, þrátt fyrir harðræði einræðisstjórnar Kim.

Trump var að svara spurningu Georges Stephanopoulos, fréttamanns ABC-sjónvarpsstöðvarinnar, varðandi hvers konar tryggingar hann hefði gefið Kim í viðræðum þeirra þegar hann fullyrti að Kim, sem stýrir heimlandinu með harðri hendi, væri elskaður heima fyrir.

„Hann verður glaður. Landið hann elskar hann. Þjóðin hans, maður sér ákafann. Þau hafa mikinn ákafa,“ sagði Bandaríkjaforseti sem lofaði jafnframt dugnað norður-kóresku þjóðarinnar.

Stephanopoulos hermdi þá fyrri orð Trump um Kim upp á hann. Forsetinn hefði til dæmis sakað Kim um að svelta eigin þjóð.

„Kim er hrottalegur einræðisherra. Hann rekur lögregluríki, nauðungarsvelti, þrælkunarbúðir. Hann hefur myrt meðlimi eigin fjölskyldu. Hvernig treystir þú slíkum morðingja?“ spurði Stephanopoulos.

Trump sagðist vinna með það sem hann hefði fengið upp í hendurnar. Hann teldi að Kim vildi standa sig vel fyrir Norður-Kóreu og afkjarnavopnavæðast.

„Við erum að byrja frá byrjun. Við erum að byrja núna og við verðum að losna við þessi kjarnavopn,“ sagði forsetinn.

Áður hafði hann lofað greind Kim og hæfileika. Þá hefur hann lýst honum sem heiðvirðum. Ekki er hins vegar langt síðan Trump ögraði leiðtoga Norður-Kóreu ítrekað á Twitter með uppnefninu „Litli eldflaugarmaðurinn“ vegna eldflaugatilrauna hans.
Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.