Erlent

Lula gaf sig fram við lögreglu

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Luis Inácio Lula da Silva þegar hann ávarpaði stuðningsmenn sína í gær.
Luis Inácio Lula da Silva þegar hann ávarpaði stuðningsmenn sína í gær. Vísir/Getty
Luis Inácio Lula da Silva, fyrrum forseti Brasilíu, gaf sig fram til lögregluyfirvalda í gærkvöldi. Hann mun því hefja afplánun 12 ára fangelsisdóms innan skamms. Lula var dæmdur fyrir spillingu og mútuþægni.

Lula hefur í tvígang áfríjað handtökuskipunum á hendur sér til hæstaréttar, en hann heldur fram sakleysi sínu. Hann hefur haldið til í aðalstöðvum verkalýðsfélags stálverkamanna í heimabæ sínum. 

Í gær komu stuðningsmenn Lula saman og ávarpaði fyrrum forsetinn þá stuðningsmenn sína og tilkynnti að hann ætlaði að gefa sig fram og hefja afplánun sína.  Stuðningsmenn Lula reyndu að koma í veg fyrir að hann gæfi sig fram með því að loka fyrir bifreið hans. Því var ákveðið að hann færi þaðan í lögreglufylgd og var flogið í burtu í þyrlu, samkvæmt frétt BBC.

Lula fyrir utan lögreglustöðina í Curitiba í Brasilíu í gærkvöldi.Vísir/Getty
Í ávarpi sínu í gær sagðis Lula ætla að koma stærri og sterkari til baka og hvatti stuðningsmenn sína til að halda áfram baráttu fyrir hugsjónum sínum. Lula segir málið gegn sér vera pólitíska árás til að koma í veg fyrir framboð hans til forseta. Hann var fyrsti forsetinn af vinstri væng stjórnmálanna þar í landi í rúmlega hálfa öld og sat í því embætti á árunum 2003 til 2011. Hann þótti líklegur til sigurs í kosningunum í október. Í gær sakaði Lula bæði dómskerfið og stærstu fjölmiðla landsins um að eiga aðild að þessu pólitíska samsæri.


Tengdar fréttir

Fyrrum forseti Brasilíu ætlar að gefa sig fram

Luis Inácio Lula da Silva, fyrrum forseti Brasilíu, hefur sagst ætla gefa sig fram til yfirvalda þar í landi eftir að hafa hlotið 12 ára dóm fyrir spillingu og mútuþægni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×