Erlent

Spillingardómur yfir fyrrverandi forseta Brasilíu staðfestur

Kjartan Kjartansson skrifar
Lula hefur verið talinn sigurstranglegastur fyrir forsetakosningar sem fara fram í október. Dómurinn setur strik í reikninginn fyrir hann.
Lula hefur verið talinn sigurstranglegastur fyrir forsetakosningar sem fara fram í október. Dómurinn setur strik í reikninginn fyrir hann. Vísir/AFP
Áfrýjunardómstóll í Brasilíu hefur staðfest dóm yfir Luiz Inacio Lula da Silva, fyrrverandi forseta, landsins vegna spillingar. Lula getur enn áfrýjað til æðri dómstigs en niðurstaðan þýðir líklega að hann verði ekki kjörgengur í forsetakosningum í október.

Lula, sem gegndi embætti forseta frá 2003 til 2011, var sakfelldur fyrir að hafa þegið mútur í formi íbúðar við sjávarsíðuna frá verktakafyrirtæki. Á móti hafi fyrirtækið fengið samninga við Petrobras, ríkisolíufyrirtæki Brasilíu.

Skoðanakannanir hafa bent til þess að Lula væri sigurstranglegasti frambjóðandinn í forsetakosningunum á þessu ári, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Sakfellingin þýðir hins vegar að hann getur ekki boðið sig fram. Lögmenn Lula fullyrða hins vegar að hann tapi ekki kjörgengi sínu fyrr en mál hans hefur farið alla leið í gegnum dómskerfið.

Spillingarmálið sem Lula er flæktur í er það stærsta sinnar tegundar í Brasilíu. Alls hefur á níunda tug stjórnmálamanna og einstaklinga úr viðskiptalífinu verið bendlaður við það.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.