Erlent

Var rekinn úr BDSM-samtökum fyrir að vera of rólegur

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Danski uppfinningamaðurinn Peter Madsen.
Danski uppfinningamaðurinn Peter Madsen. Vísir/AFP

Danski uppfinningmaðurinn Peter Madsen, sem ákærður er fyrir að hafa myrt sænsku blaðakonuna Kim Wall, var rekinn úr dönskum BDSM-samtökum fyrir að vera of rólegur og taka ekki virkan þátt. Þetta kom fram í svörum vitnis við réttarhöldin yfir Madsen, sem halda áfram í dag.

Sjöundi dagur réttarhaldanna yfir Madsen hófst í dag og eins og áður er þeim lýst í beinni textalýsingu á vef danska ríkisútvarpsins.

Fyrsta vitni dagsins var karlmaður, sem sat í stjórn samtakanna „Det Sorte Selskab“ eða „Svarta félagsins“, í hverjum Madsen var félagsmaður um aldamótin 2000. Samtökin eru fyrir fólk sem leitast eftir því að stunda svokallað BDSM-kynlíf, sem samkvæmt heimasíðu BDSM á Íslandi snýst um „valdaskipti og/eða blæti á einn eða annan hátt,“ og hittust félagsmenn reglulega til þeirrar ástundunar.

Vitnið sagði Madsen hafa verið meðlimur í samtökunum í stuttan tíma en að hann hafi verið rekinn vegna þess að hann virtist „yfirvegaður og rólegur maður, sem lét fara vel um sig og fylgdist með. Hann virtist frekar vera áhugasamur en virkilega knúinn áfram af losta.“

Sjá einnig: Sagður hafa boðið ungum konum ítrekað út í kafbátinn

Áður hefur komið fram að Madsen hafi verið „heillaður af dauðanum.“ Fjölmörg myndbönd, sem fundist hafa í síma og tölvu Madsens, hafa verið sýnd við réttarhöldin og innihalda þau flest gróft ofbeldi og misþyrmingar af einhverju tagi.

Þá hefur Madsen sjálfur leikið í klámmyndum, að því er fram kom í framburði eins vitnis í vikunni, og hann er auk þess sagður hafa viljað taka upp svokallaða „snuff“-mynd með konu í kafbáti sínum. Í slíkri mynd deyr einhver í alvörunni.

Peter Madsen er grunaður um að hafa myrt Kim Wall í kafbáti sínum í ágúst síðastliðnum. Hann er þar að auki ákærður fyrir kynferðisbrot, að vanvirða lík og að brjóta öryggisreglur um siglingar.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.