Erlent

Lýsti Madsen sem manni sem væri heillaður af dauðanum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Madsen er ákærður fyrir að hafa orðið sænsku blaðakonunni Kim Wall að bana en Madsen neitar sök í málinu og segir að Wall hafi látist um borð í kafbát hans vegna koltvísýringseitrunar.
Madsen er ákærður fyrir að hafa orðið sænsku blaðakonunni Kim Wall að bana en Madsen neitar sök í málinu og segir að Wall hafi látist um borð í kafbát hans vegna koltvísýringseitrunar. vísir/getty

Réttarhöldin yfir danska uppfinningamanninum Peter Madsen halda áfram í Kaupmannahöfn í dag. Madsen er ákærður fyrir að hafa orðið sænsku blaðakonunni Kim Wall að bana en Madsen neitar sök í málinu og segir að Wall hafi látist um borð í kafbát hans vegna koltvísýringseitrunar.

Á meðal þeirra sem báru vitni fyrir dómi í morgun voru tvær konur sem hafa átt í kynferðislegu sambandi við Madsen. Voru þær spurðar út í kynferðislegar tilhneigingar Madsen en önnur kvennanna kynntist honum í partýi fyrir fólk sem vill stunda BDSM-kynlíf.

Konan lýsti því fyrir dómi að eitt sinn hefðu þau stundað kynlíf þar sem Madsen tók hana hálstaki en hún sagði að hann hefði ekki þrengt mjög mikið að. Þá hefðu þau stundað kynlíf í kafbátnum hans. Þegar hún var spurð að því hvort hún hefði verið bundin þar niður svaraði hún neitandi.

Sjá einnig:Bein textalýsing fréttamanns DR úr dómsal

Segist ekki líta á Madsen sem ofbeldisfullan mann

Hin konan sem kom fyrir dóminn í morgun lýsti Madsen sem ekkert sérstaklega sjálfsöruggum manni. Hann hefði aldrei orðið ofbeldisfullur við hana.

„Hann tók mig stundum hálstaki en það var ekkert mál. Ég hef ekki litið á Peter Madsen sem árásarhneigðan mann,“ sagði konan.

 

Hún var spurð út í ýmis textaskilaboð, bæði á milli hennar og Madsen og á milli hennar og annarrar konu sem einnig átti í kynferðislegu sambandi við Madsen. Á meðal þess sem sú kona sagði þeirri sem bar vitni í morgun var að hún og Madsen hefðu talað um að gera „snuff“-mynd með henni. Í slíkri mynd er einhver drepinn í alvörunni.

„Þá verða þau örugglega enn sannfærðari um að hann sé algjörlega brjálaður“

„Peter er heillaður af dauðanum en ég man ekki hverju það tengist,“ sagði konan fyrir dómi í morgun. Spurð út í textaskilaboðin um „snuff“-myndina kvaðst hún ekki hafa vitað hvað „snuff“ væri. Hún hefði hins vegar ekki talið að konan sem sendi henni skilaboðin og Madsen myndu gera eitthvað við hana í kafbátnum.

Konan var síðan spurð út í hvað hún hefði átt við með eftirfarandi skilaboðum sem hún hefði sent á hina konuna, viku eftir að Madsen var handtekinn:

„Ef þau heyra alla söguna um mig og Peter þá verða þau örugglega enn sannfærðari um að hann sé algjörlega brjálaður.“

Svaraði konan því til að hún hefði átt við að samband hennar og Madsen hefði verið óvenjulegt.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.