Bandaríski leikstjórinn Woody Allen segist sorgmæddur vegna máls Harvey Weinstein en á þriðja tug kvenna hafa stigið fram á undanförnum dögum og sakað hann um að hafa beitt þær kynferðislegu ofbeldi.
Allen og Weinstein hafa í gegnum tíðina unnið saman að fjölmörgum kvikmyndum, meðal annars Óskarsverðlaunamyndinni Mighty Aphrodite. Allen segist aldrei hafa heyrt um ásakanir í garð Weinstein um nauðgun eða kynferðislega áreitni.
„Það var enginn sem kom nokkurn tímann til mín með einhverjar hryllingssögur. En það hefði aldrei neinn gert það því það hefur ekki neinn áhuga á því. Þú hefur bara áhuga á að gera kvikmyndina þína. En þú heyrir endalausa orðróma og sumir þeirra reynast svo vera sannir,“ sagði Allen í samtali við BBC.
Hann segir málið sorglegt bæði fyrir þær konur sem urðu fyrir barðinu á Weinstein sem og hann sjálfan.
„Þetta mál er mjög sorglegt fyrir alla sem eiga hlut að máli. Bæði fyrir þær konur sem þurftu að ganga í gegnum þetta og Weinstein þar sem líf hans er í algjörri óreiðu. Það eru engir sigurvegarar í þessu máli.
Allen hefur sjálfur verið ásakaður um kynferðisofbeldi en Dylan Farrow, dóttir leikstjórans, segist hafa verið misnotuð kynferðislega af honum í æsku. Allen hefur þó alltaf þvertekið fyrir það að hafa misnotað dóttur sína.