Enski boltinn

Turnarnir tveir á toppnum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Kevin de Bruyne skoraði eina mark leiksins á Stamford Bridge á laugardaginn. Hann hljóp beint til stuðningsmanna Manchester City og fagnaði gríðarlega með liðsfélögum sínum.
Kevin de Bruyne skoraði eina mark leiksins á Stamford Bridge á laugardaginn. Hann hljóp beint til stuðningsmanna Manchester City og fagnaði gríðarlega með liðsfélögum sínum. vísir/getty
Stórleikur helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni fór fram á Stamford Bridge í Lundúnum. Þar tóku Englandsmeistarar Chelsea á móti Manchester City í hörkuleik en hvorugt liðið gaf mikið færi á sér.

Það mátti sannarlega búast við því að ekki yrðu skoruð mörg mörk í leiknum og sú varð raunin. Belginn Kevin de Bruyne skoraði sigurmark City með þrumuskoti eftir undirbúning frá Gabriel Jesus. Markið kom rúmlega tuttugu mínútum fyrir leikslok og náðu leikmenn Chelsea ekki að jafna metin.

„Það sem skiptir mestu máli er að vinna leikinn,“ sagði Pep Guardiola, knattspyrnustjóri City eftir leikinn á laugardaginn. „En hvernig við spiluðum, sérstaklega í seinni hálfleiknum, við vorum frábærir. Grimmir og leyfðum þeim ekki að spila boltanum. Kevin [de Bruyne] var frábær í dag, við erum mjög ánægðir með stigin þrjú,“ sagði Guardiola.

Everton er miklum vandræðum í ensku úrvalsdeildinni og hafa leikmenn liðsins alls ekki fundið fjölina í fyrstu sjö umferðunum. Everton tapaði fyrir Burnley á heimavelli í gær og situr liðið í 16. sæti deildarinnar með aðeins sjö stig. Liðið hefur aðeins skorað fjögur mörk og fengið á sig tólf.

Gylfi Þór Sigurðsson lék allan leikinn fyrir Everton og náði hann ekki að setja mark sitt á leikinn. Á meðan Romelu Lukaku, fyrrverandi leikmaður Everton, skorar og og skorar fyrir Manchester United þá virðist Everton ekki getað keypt sér mark.

Ronald Koeman, knattspyrnustjóri Everton, á mikið verk óunnið að koma liðinu á beinu brautina en hann eyddi gríðarlega miklum fjármunum á leikmannamarkaðnum í sumar. Koeman fékk Wayne Rooney, Gylfa Þór Sigurðsson, Michael Keane, Jordan Pickford og Davy Klaassen til liðsins í sumar og missti Romelu Lukaku til Manchester United. Það er því farið að hitna vel undir stjóranum og pressan orðin gríðarleg. Stuðningsmenn Everton létu leikmenn liðsins heldur betur heyra það í leikslok í gær.

„Ég get ekki kvartað yfir viðbrögðum stuðningsmanna okkar. Það eru allir mjög ósáttir við gengi liðsins en stuðningsmennirnir geta ekki kvartað yfir vinnuframlagi leikmanna, því þeir eru allir að leggja sig fram,“ sagði stjórinn eftir tapið í gær. Aðeins Swansea og Crystal Palace hafa skorað færri mörk en Everton í deildinni.

„Ég er með góðan leikmannahóp í höndunum og lausnin hjá okkur er að menn leggi sig eins mikið fram og við sáum í dag. Einnig þurfa menn að fara spila aðeins betur og svo þurfum við kannski smá heppni með okkur.“

Manchester United valtaði yfir Crystal Palace, 4-0, á Old Trafford og eru bæði Manchester-liðin að skora og skora í deildinni. Stuðningsmenn Manchester United hafa sumir ekki verið neitt sérstaklega hrifnir af Marouane Fellaini en miðjumaðurinn náði eflaust að snúa þeim mörgum um helgina en hann gerði sér lítið fyrir og skoraði tvö mörk í leiknum.

„Allir knattspyrnustjórar eru mismunandi. Stundum líkar okkur við leikmenn sem öðrum líkar ekki við, sumir leikmenn spila betur undir sumum stjórum en öðrum,“ sagði Jose Mourinho eftir leikinn á laugardaginn.

„Marouane hefur mikilvæga eiginleika sem ég reyni að nýta mér. Hann hefur spilað sem varnarsinnaður miðjumaður og framherji, hann lagar sig að því hlutverki sem liðið þarfnast. Hann hefur mikið stolt. Ég er mjög ánægður með að hafa hjálpað honum að ná á þann stað sem hann er og að hafa breytt því hvernig stuðningsmennirnir sjá hann,“ sagði Mourinho.

Manchester City hefur skorað 22 mörk í deildinni og aðeins fengið á sig tvö mörk. Manchester United hefur skorað 21 mark og einnig aðeins fengið á sig tvö mörk.

„Þessi stóru lið hafa svo rosaleg gæði fram á við og misnota mjög sjaldan góð færi,“ sagði Roy Hodgson, knattspyrnustjóri Crystal Palace en liðið hefur ekki enn skorað í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu. 

„Það var stefnan að ná einhverju út úr þessum leik en það gekk ekki eftir. Undanfarnar þrjár vikur hafa verið betri hjá okkur en ég held að við þurfum svo sannarlega á þessari landsleikjapásu að halda. Næsti leikur okkar í deildinni er gegn Chelsea, svo þetta verður ekkert auðveldara fyrir okkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×