Mesut Özil hafði lítinn húmor fyrir því að vera kallaður í lyfjapróf strax eftir 2-0 tap Arsenal fyrir Tottenham í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn.
Özil reyndi fyrst að koma sér hjá því að fara í lyfjaprófið. Þegar honum var tjáð að hann gæti fengið sekt fyrir það sparkaði hann í hurð og skildi eftir takkaför á henni. Özil fór þó á endanum í lyfjaprófið.
Þýski landsliðsmaðurinn ku vera ósáttur með hversu oft hann hefur verið kallaður í lyfjapróf í vetur.
Framtíð Özils er í lausu lofti en hann á enn eftir að skrifa undir nýjan samning við Arsenal.
Özil hefur ekki átt sitt besta tímabil í vetur og samkvæmt heimildum The Telegraph er Arsenal tilbúið að hlusta á tilboð í Þjóðverjann sem hefur verið í herbúðum félagsins frá 2013.
Arsenal situr í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, sex stigum frá Meistaradeildarsæti.
