Enski boltinn

Chelsea-tríó með doktorsgráðu í markafræði

Tómas Þór Þórðarson skrifar
PhD: Pedro, Eden Hazard og Diego Costa, eru búnir að skora 27 mörk og leggja upp ellefu en það er svipað og MSN og betri árangur en hjá BBC.
PhD: Pedro, Eden Hazard og Diego Costa, eru búnir að skora 27 mörk og leggja upp ellefu en það er svipað og MSN og betri árangur en hjá BBC. vísir/Getty
Chelsea vann leik í ensku úrvalsdeildinni í gær þegar hin víðfræga umferð á öðrum degi jóla fór fram (mínus tveir leikir). Það þykir ekki saga til næsta bæjar þessa dagana því Chelsea getur ekki tapað. Lærisveinar Antonios Conte unnu tólfta leikinn í röð í ensku úrvalsdeildinni í gær sem er met en ekkert lið hefur áður unnið svo marga leiki í röð á einu tímabili. Metið átti Manchester United sem er reyndar komið á skrið líka.

Chelsea heldur sex stiga forskoti á toppi deildarinnar en allt hefur breyst hjá Lundúnaliðinu eftir að knattspyrnustjóri þess, Antonio Conte, breytti í 3-4-3 leikkerfið sem hann fór langt með að fullkomna með Juventus á Ítalíu. Conte var nóg boðið eftir 3-0 tap gegn Arsenal í lok september og frumsýndi 3-4-3 í næsta leik gegn Hull. Síðan þá er liðið búið að innbyrða 36 stig af 36 mögulegum og þykir líklegast til að vinna deildina.

Ný skammstöfun í bænum

Í spænsku 1. deildinni snýst meira og minna allt um baráttu Cristianos Ronaldo og Lionels Messi. Þegar menn eru ekki bara uppteknir af þeim þykir mikið sport að tala um framherjatríóin sem hafa verið skírð MSN (Messi, Suárez, Neymar) og BBC (Bale, Benzema, Cristiano Ronaldo). Erfitt var að ímynda sér að hægt væri að búa til betri þrenningar en Chelsea er búið að finna sína heilögu þrenningu.

Pedro Rodríguez, Eden Hazard og Diego Costa eru óstöðvandi þessa dagana og hafa fengið sína eigin skammstöfun. Hún tengist ekki fréttavefjum eins og MSN og BBC heldur er leitað í læknisfræðina. Þremenningarnir eru kallaðir PhD og má því segja að þeir séu komnir með doktorsgráðu í markafræði enda gera þeir lítið annað en að skora eða leggja upp mörk.

Pedro skoraði tvö og lagði upp eitt í 3-0 sigrinum á Bournemouth í gær og er nú búinn að skora fimm og leggja upp fimm önnur. Hann er baneitraður á Brúnni en þar hafa öll mörkin og stoðsendingarnar litið dagsins ljós.

Á pari við MSN

Eden Hazard skoraði eitt og er nú búinn að skora níu og leggja upp eitt en Diego Costa er þeirra hættulegastur með þrettán mörk og fimm stoðsendingar. Samtals er PhD-tríóið búið að skora 27af 38 mörkum Chelsea og leggja upp önnur ellefu.

Þetta er á pari við hið ótrúlega MSN-tríó Börsunga sem er búið að skora 28 mörk og leggja upp önnur 16 í spænsku 1. deildinni. Chelsea er vissulega ekki í Meistaradeildinni en sé tölfræðin þar tekin með er MSN í sérflokki.

BBC-tríóið hefur verið svolítið meitt og aðeins spilað ellefu leiki á kjaft í spænsku deildinni en það er „aðeins“ búið að skora 19 mörk og leggja upp fimm. Ronaldo ber það tríó á herðum sér með tíu mörk eða meira en Benzema og Bale til samans.

Kominn í hóp með Eiði Smára

Markið sem Eden Hazard skoraði fyrir Chelsea í gær er það 50. sem Belginn magnaði setur í búningi Chelsea. Hann varð um leið sjötti maðurinn til að skora 50 mörk fyrir Lundúnaliðið og er þar kominn í hóp með ansi góðum mönnum.

Einn þeirra er okkar eigin Eiður Smári Guðjohnsen en auk hans skoruðu Frank Lampard, Didier Drogba, Jimmy Floyd Hasselbaink og Gianfranco Zola allir að minnsta kosti 50 mörk fyrir Chelsea.

Haldi Pedro, Hazard og Costa áfram í framhaldsnáminu er erfitt að sjá nokkurt lið stöðva Chelsea á leið að titlinum. tomas@365.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×