Erlent

Duterte vill taka „fimm eða sex“ manns af lífi á dag

Atli Ísleifsson skrifar
Rodrigo Duterte er mjög umdeildur maður og tók við forsetaembættinu í sumar.
Rodrigo Duterte er mjög umdeildur maður og tók við forsetaembættinu í sumar. Vísir/AFP
Rodrigo Duterte, hinn umdeildi forseti Filippseyja, segist vilja taka upp dauðarefsingar í landinu að nýju og taka „fimm eða sex“ glæpamenn af lífi á hverjum degi.

„Við vorum með dauðarefsingar hér áður fyrr, en ekkert gerðist. Gefið mér þær aftur og ég myndi beita þeim á hverjum degi: fimm eða sex á dag. Ég er ekki að grínast,“ segir Duterte.

Í frétt SVT kemur fram að trúarleiðtogar og talsmenn mannréttindasamtaka hafi fordæmt orð forsetans. „Fólk mun álíta Filippseyjar mjög villimannslegar,“ segir Jerome Secillano, forsvarsmaður áhrifamikillar kaþólskrar stofnunar í landinu.

Duterte er mjög umdeildur maður og tók við forsetaembættinu í sumar. Reuters greinir frá því að lögreglan á Filippseyjum hafi skotið rúmlega tvö þúsund manns til bana í aðgerðum sem tengjast stríðinu svokallaða gegn fíkniefnum. Flestir þeirra eru sagðir hafa veitt mótspyrnu við handtöku.

Þar að auki eru þrjú þúsund morð til rannsóknar þar sem grunur leikur á að sjálfskipaðar löggæslusveitir hafi myrt meinta fíkniefnasala og neytendur.

Dauðarefsingar voru afnumdar á Filippseyjum árið 2006.


Tengdar fréttir

Forseti Filippseyja hótar enn að láta myrða fólk

Forseti Filipseyja hefur viðurkennt að hafa persónulega tekið fjölda manns af lífi til að sýna lögreglumönnum gott fordæmi. Um fimm þúsund manns hafa verið myrt á eyjunum frá því hann tók við embætti forseta í júlímánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×