Enski boltinn

Gullinn aukaspyrnufótur Gylfa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
grafík/fréttablaðið
Hann hefur kannski ekki skorað beint úr aukaspyrnu fyrir íslenska landsliðið í að verða fjögur ár en Gylfi Þór Sigurðsson er fyrir löngu orðinn einn allra hættulegasti spyrnumaður ensku úrvalsdeildarinnar.

Enginn leikmaður í bestu deild í heimi hefur skorað fleiri aukaspyrnumörk frá byrjun síðasta tímabils. Markið hans á móti Crystal Palace um helgina var það þriðja hjá Gylfa beint úr aukaspyrnu frá því í ágúst 2015.

Frábær spyrnufótur Gylfa skilaði ekki aðeins þessu eina marki beint úr aukaspyrnu því öll hin fjögur mörk Swansea-liðsins komu eftir eða í framhaldi af stórhættulegum sendingum hans inn í vítateig Palace-manna.

Í hópi með Mata og Eriksen

Aukaspyrnumark Gylfa um helgina var einnig það sjötta sem hann skorar í ensku úrvalsdeildinni og aðeins þeir Christian Eriksen og Juan Mata hafa náð því að skora sex sinnum beint úr aukaspyrnu frá því að Gylfi lék sinn fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni í janúar 2012.

„Ég er auðvitað ánægður með sigurinn en jafnframt pirraður yfir því að hafa misst niður 3-1 forystu og lent 4-3 undir. Við sýndum þá mikinn karakter því mörg lið hefðu gefist upp í stöðunni 4-3,“ sagði Gylfi eftir leik.

Skrýtinn leikur

„Þetta var skrýtinn leikur en við sýndum karakter. Trúin er til staðar. Við þurfum að byggja ofan á þennan leik sem og leikinn á móti Everton í síðustu viku og reyna að vera aðeins betri í næsta leik. Þetta snerist samt bara um að ná í þessi þrjú stig og þá skiptir ekki máli hvort þetta sé fallegur eða ljótur sigur,“ sagði Gylfi.

Markið hans var þó af glæsilegri gerðinni og átti sinn þátt í því að gera sigurinn talsvert „fallegri.“ Það hefur reynt mikið á liðið í öllu mótlætinu að undanförnu en lið með Gylfa Þór Sigurðsson innanborðs eiga alltaf ás upp í erminni í spyrnum hans úr föstum leikatriðum eins og sannaðist með svo eftirminnilegum hætti um helgina.

Gylfi hefur spilað á stóra sviði Evrópu frá því að hann fór frá Reading til þýska liðsins Hoffenheim fyrir tímabilið 2010-11 en undanfarin sex ár hefur hann síðan spilað í einni af fimm bestu deildum Evrópu.

Gylfi skoraði tvö aukaspyrnumörk í fyrstu fimm leikjum sínum með Hoffenheim en skipti síðan yfir í ensku úrvalsdeildina í janúar 2012. Gylfi skoraði eitt aukaspyrnumark í átján leikjum sem hann spilaði með Swansea fram á vor.

Gylfi náði ekki að skora mark beint úr aukaspyrnu á tveimur tímabilum sínum með Tottenham en hann hefur aftur á móti skorað 5 af 22 mörkum sínum undanfarin þrjú tímabili með Swansea með skoti beint úr aukaspyrnu.

Góður á móti Hennessey

Gylfi vildi eflaust spila á móti Wayne Hennessey á hverjum degi enda búinn að skora hjá honum tvisvar á þessu ári með skoti beint úr aukaspyrnu. Þar áður hafði hann skorað tvisvar úr aukaspyrnu fram hjá bandaríska markverðinum Brad Guzan.

Gylfi skoraði tvö eftirminnileg mörk beint úr aukaspyrnu í mikilvægum sigrum íslenska liðsins í undankeppni HM 2014. Það fyrra tryggði Íslandi 2-1 sigur á Albaníu en það síðara var fyrra mark hans í 2-1 sigri í Slóveníu.

Seinna aukaspyrnumark Gylfa með landsliðinu leit dagsins ljós 22. mars 2013 og síðan hefur hann spilað 32 landsleiki í röð án þess að skora beint úr aukaspyrnu. Næsta aukaspyrnumark hans fyrir Ísland dettur vonandi inn á árinu 2017 og hjálpar íslenska liðinu að komast á HM í fyrsta sinn.


Tengdar fréttir

Gylfi fær fullkomna einkunn hjá ESPN

Max Hicks, sem skrifar um enska úrvalsdeildarliðið Swansea City fyrir ESPN, gefur Gylfa Þór Sigurðssyni fullkomna einkunn fyrir frammistöðu hans í ótrúlegum 5-4 sigri Swansea á Crystal Palace í gær.

Gylfi ausinn lofi í breskum fjölmiðlum

Gylfi Þór Sigurðsson fær mikið lof í fjölmiðlum eftir frábæra frammistöðu í sigri Swansea gegn Crystal Palace í gær. Sigurinn var sá fyrsti undir stjórn Bob Bradley.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×