Enski boltinn

Gylfi skoraði í tapi gegn Arsenal | Sjáðu mörkin

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði glæsilegt mark fyrir Swansea þegar liðið mætti Arsenal á Emirates-vellinum í Lundúnum í dag.

Bob Bradley stjórnaði Swansea í fyrsta sinn eftir að hafa tekið við liðinu af Francesco Guidolin sem sagt var upp störfum á dögunum.

Arsenal byrjaði leikinn mun betur og Theo Walcott kom þeim í 2-0 með tveimur mörkum með sjö mínútna millibili um miðjan fyrri hálfleikinn.

Á 38.mínútu minnkaði Gylfi Þór Sigurðsson svo muninn þegar hann skoraði glæsilegt mark fyrir utan teig. Gylfi vann boltann af Granit Xhaka leikmanni Arsenal og setti boltann með vinstri fæti framhjá Petr Cech í marki Arsenal. Frábært skot og staðan í hálfleik 2-1.

Heimamenn komust svo yfir á nýjan leik á 57.mínútu þegar Mesut Özil skoraði laglegt mark. Spánverjinn Borja Baston minnkaði muninn á nýjan leik fyrir Swansea þegar hann skoraði á 66.mínútu og fjórum mínútum síðar fékk Granit Xhaka beint rautt spjald fyrir brot.

Einum færri settu leikmenn Swansea töluverða pressu á Arsenal sem þó fengu sín færi. Walcott fékk meðal annars frábært tækifæri til að fullkomna þrennuna en skaut í þverslá fyrir opnu marki.

Lokatölur 3-2 fyrir Arsenal og tapleikur í fyrsta leik Bob Bradley hjá Swansea.

Arsenal jafnar Manchester City að stigum á toppi deildarinnar með sigrinum en Swansea er í 18.sæti með 4 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×