Erlent

Pentagon bannar Pokémon Go innan stofnunarinnar

Birta Svavarsdóttir skrifar
Pokémonar eru sjaldséð sjón innan varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna.
Pokémonar eru sjaldséð sjón innan varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna. Getty
Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur lagt bann við því að spila snjallsímaleikinn Pokémon Go innan stofnunarinnar. Ástæða bannsins eru áhyggjur af því að notkun leiksins geti auðveldað njósnir, en Pokémon Go notast við GPS-staðsetningu til að kortleggja svæðin í kring um þau snjalltæki sem innihalda leikinn. Við útgáfu leiksins í byrjun júlí var pokémon-fimleikasalur eða „gym“ staðsettur á lóð Pentagon, en salurinn hefur síðan verið fjarlægður úr leiknum.

Þetta kemur fram á vef Washington Times.

Leikurinn hefur notið mikilla vinsælda um heim allan undanfarið. Hann gengur út á að safna pokémonum víðsvegar um nánasta umhverfi notanda, en þeir geta leynst hvar sem er. Þeir sem spila verða því að fara út úr húsi og ganga eða ferðast um til að verða sér úti um fleiri furðudýr.

Embættismenn varnarmálaráðuneytisins segja varhugavert að leyfa spilun leiksins á svæðinu, þar sem það gæti auðveldað það að staðsetja nákvæmlega herbergi og aðra staði þar sem leynilegar upplýsingar eru geymdar. Leikurinn geti einnig hýst persónulegar upplýsingar um starfsfólk ráðuneytisins sem gætu verið hættulegar ef þær kæmust í hendur nethrella eða erlendra njósnara.


Tengdar fréttir

Engir pokémonar í Ríó

Tölvuleikurinn Pokémon Go hefur notið gríðarlegra vinsælda síðustu vikurnar en þar reynir fólk að fanga pokémona og þjálfa þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×