Erlent

Lifði af sína þriðju hryðjuverkaárás

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Wells, til vinstri, ásamt félaga sínum, Joseph Empey, sem særðist einnig í árásunum í Brussel.
Wells, til vinstri, ásamt félaga sínum, Joseph Empey, sem særðist einnig í árásunum í Brussel. Mynd/Samsett
Hinn 19 ára gamli Bandaríkjamaður Mason Wells, trúboði af Mormónatrú, særðist í hryðjuverkaárásinni á Zaventem-flugvellinum í Brussel í gær. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Wells upplifir hryðjuverk. Hann var á vettvangi sprengjuárásinnar sem gerð var á Boston-maraþonið árið 2013 auk þess sem hann var staddur í París í nóvember þegar árásirnar voru gerðar þar.

Í gær var Wells á ferð með félögum sínum úr Mormónakirkjunni, Bandaríkjamönnunum Richard Norby og Joseph Empey. Voru þeir að skutla frönskum kollega sínum á flugvöllinn þegar árásin var gerð. Særðist Wells í árásinni en haft er eftir fjölskylduvini að hann hafi brunnið á andliti en mestur skaði hafi orðið í kringum læri hans og ökkla.

Það er býsna ótrúlegt en Wells var einnig staddur á vettvangi þegar tvær sprengjur sprungu við endamark Boston-maraþonsins í apríl 2013 þar sem þrír fórust og 264 slösuðust. Tók móðir hans þátt í maraþoninu og var hann staddur þar til að fylgjast með henni.

„Hann var ansi nálægt,“ segir Scott Bond, biskup Mormónakirkju Wells um staðsetningu Wells þegar sprengjurnar sprungu í Boston. „Það er ótrúlegt að hugsa til þess að hann hafi verið svo nálægt slíkum árásum í tvígang. Ef að það er einhver sem getur þolað þetta er það hann. Hann er ótrúlegur ungur maður.“

Hryðjuverkin virðast elta Wells en hann var einnig staddur í París þegar hryðjuverkaárásirnar voru gerðar þar í nóvember á síðasta ári, ólíkt seinni tveimur árásunum sem Wells upplifði var hann þó staddur í öðru hverfi þegar árásarmennirnir í París létu til skarar skríða.

Í samtali við fréttastofu ABC sagði faðir Wells að ótrúlegt væri að sonur sinn hafi upplifað þrjár hryðjuverkaárásir. Sagði hann að heimurinn væri hættulegur og því miður væru ekki allir íbúar hans ástríkir og friðelskandi.

Staðfest hefur verið að 33 létust í hryðjuverkaárásunum þremur í Brussel í gær og að rúmlega 200 séu særðir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×