Erlent

Umfangsmikil leit um alla Belgíu að grunuðum hryðjuverkamanni

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Lögreglan í Belgíu leitar nú ákaft af manninum í hvíta jakkanum.
Lögreglan í Belgíu leitar nú ákaft af manninum í hvíta jakkanum.
Uppfært klukkan 19.20:

Belgíska lögreglan hefur fundið sprengju, meðal annars með nöglum, í áhlaupi á íbúð í Schaarbeek-hverfinu í Brussel. Þá fundust einnig efni til sprengjugerðar í íbúðinni auk fána Íslamska ríkisins.

Belgíski ríkissaksóknarinn, Frederic Van Leeuw, greindi frá því hvernig rannsókn yfirvalda á hryðjuverkaárásunum í Brussel í morgun miðar á blaðamannafundi nú undir kvöld. Hann staðfesti að þrjár sprengjur hefðu sprungið, tvær á Zaventem-flugvellinum og ein í lest nærri Maelbeek-lestarstöðinni. Að minnsta kosti 34 létust í árásunum og yfir 230 særðust.

Fram kom í máli saksóknarans að tveir mannanna sem eru á mynd sem lögreglan birti úr eftirlitsmyndavélum af flugvellinum í dag séu mjög líklega tengdir árásunum. Talið er að þeir hafi sprengt sig í loft upp á flugvellinum en þriðja mannsins, þess sem klæddur er í hvítan jakka, er nú ákaft leitað af belgísku lögreglunni og eru áhlaup í gangi víða um land. Þá hefur verið lýst eftir honum í fjölmiðlum en grunur leikur á að hann sé viðriðinn árásirnar.

Íslamska ríkið hefur lýst yfir ábyrgð á árásunum en saksóknarinn sagði enn of snemmt að tengja árásirnar í dag beint við hryðjuverkaárásirnar í París í nóvember þar sem 130 manns fórust.

Forsætisráðherra Belgíu, Charles Michel, ávarpaði jafnframt þjóðina á blaðamannafundinum en lýst hefur verið yfir þjóðarsorg næstu þrjá daga.

Ráðherrann sagði Belga vilja að daglegt líf kæmist sem fyrst í eðlilegt horf. Hann sagði að ráðist hefði verið á frelsið í hjarta þess í dag, líkt og gert hefði verið í árásunum í París í nóvember, og í London árið 2007 og Madríd árið 2004.

„Þetta er sameiginleg barátta sem þekkir engin landamæri og við erum staðráðin í að berjast fyrir frelsi okkar,“ sagði tárvotur forsætisráðherrann á blaðamannafundinum í dag.

Hér má fylgjast með umfjöllun Guardian um hryðjuverkaárásirnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×