Íslenski boltinn

Boðuð endurkoma Dóru Maríu áramótagrín hjá Valsmönnum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bara grín.
Bara grín. mynd/facebook-síða vals
Valsmenn eru oftar en ekki léttir í lund og það er engin breyting á því núna um áramótin.

Fyrir skömmu birtist mynd á Facebook-síðu Vals þar sem Ólafur Brynjólfsson, þjálfari kvennaliðsins í fótbolta, og Dóra María Lárusdóttir takast í hendur. Yfirskriftin er "Þjálfari Vals handsalar nýjan þriggja ára samning við Dóru Maríu."

Dóra María hefur verið í fríi frá knattspyrnuiðkun undanfarna mánuði og lék ekkert með Val á síðasta tímabili. Því hafa margir eflaust glaðst við að sjá þessar fréttir.

Að sögn Ólafs er þó bara um grín að ræða en í samtali við Vísi sagði hann að enginn samningur hafi verið undirritaður í dag. Hann útilokaði þó ekki að Dóra María myndi taka skóna úr hillunni og sagði að það kæmi í ljós á næstu vikum.

Ljóst er að Dóra María myndi styrkja Valsliðið til mikilla muna enda er hún ein af fremstu fótboltakonum Íslands. Dóra María vann fjölda titla með Val á sínum tíma og þá er hún næstleikjahæsti leikmaður í sögu kvennalandsliðsins.

Dóra hefur alls leikið 108 landsleiki og skorað 18 mörk en hún varð yngsti leikmaðurinn í íslenskri knattspyrnusögu til að leika 100 landsleiki fyrir Íslands hönd.

Valur hefur endað í 7. sæti Pepsi-deildar kvenna undanfarin tvö tímabil en ljóst er að liðið ætlar að gera mun betur á næsta tímabili.

Valsmenn hafa verið liða duglegastir á félagaskiptamarkaðinum en systurnar Margrét Lára og Elísa Viðarsdætur, Arna Sif Ásgrímsdóttir, Rúna Sif Stefánsdóttir og Thelma Björk Einarsdóttir hafa allar fengið til liðs við Val í vetur.


Tengdar fréttir

Valur heldur áfram að safna liði

Valur heldur áfram að safna liði fyrir átökin í Pepsi-deild kvenna í fótbolta á næsta tímabili en í gær skrifaði Thelma Björk Einarsdóttir undir tveggja ára samning við félagið. Þetta kemur fram á heimasíðu Vals.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×