Erlent

Þau kvöddu á árinu 2015

Atli ísleifsson skrifar
Anita Ekberg, B.B King, Bobbi Kristina Brown, Helmut Schmidt, Cynthia Lennon, Lee Kuan Yew, Jackie Collins og Leonard Nimoy létust öll á árinu.
Anita Ekberg, B.B King, Bobbi Kristina Brown, Helmut Schmidt, Cynthia Lennon, Lee Kuan Yew, Jackie Collins og Leonard Nimoy létust öll á árinu. Vísir/Getty
Fjölmargir þekktir einstaklingar úti í heimi kvöddu þennan heim á árinu sem senn er á enda.

Vísir tók saman nokkur nöfn sem Íslendingum ættu að vera kunnug.

Stjórnmálin

Abdullah
, konungur Sádi-Arabíu, lést þann 23. janúar, níræður að aldri. Hann tók við krúnunni árið 2005 eftir að hálfbróðir hans, Fahd konungur, féll frá.

Malcolm Fraser, fyrrum forsætisráðherra Ástralíu, andaðist í mars, 84 ára að aldri. Fraser gegndi embætti forsætisráðherra landsins á árunum 1975 til 1983.

Boris Nemtsov, rússneskur stjórnarandstæðingur, var myrtur á brú nærri Rauða torginu í Moskvu, þann 27. febrúar. Nemtsov var einn helsti andstæðingur Vladimírs Pútín Rússlandsforseta.

Jevgení Primakov, fyrrum forsætisráðherra Rússlands, andaðist í júní, 85 ára að aldri. Primakov gegndi embætti forsætisráðherra landsins á árunum 1998 til 1999.

Helmut Schmidt.Vísir/Getty
Helmut Schmidt, fyrrverandi kanslari Vestur-Þýskalands, lést í september. Hann varð 96 ára gamall. Schmidt var kanslari á hátindi kalda stríðsins á árunum 1974 til 1982.

Lee Kuan Yew, fyrsti forsætisráðherra Singapúr, lést 22. mars, 91 árs að aldri. Lee fór fyrir því að breyta Singapúr úr því að vera lítil hafnarborg í að verða eitt auðugasta ríki heims. Hann gegndi embætti forsætisráðherra ríkisins í 31 ár, frá 1959 til 1990.

Menning og listir

Chantal Akerman
, belgískur kvikmyndaleikstjóri, lést í október, 65 ára að aldri. Akerman er talinn frumkvöðull á sviði feminískrar kvikmyndagerðar en best þekkta mynd hennar er Jeanne Dielman, 23 quai du Commerce, 1080 Bruxelles frá árinu 1975.

Lynn Anderson, bandarísk kántrísöngkona, lést í júlí, 67 ára að aldri. Hún kom fjölda laga á vinsældalista á sjöunda, áttunda og níunda áratugnum, en er þekktust fyrir lag sitt (I Never Promised You a) Rose Garden frá áttunda áratugnum.

Cilla Black.Vísir/Getty
Cilla Black, ensk söngkona, leikkona og sjónvarpskona, lést á Spáni þann 1. ágúst, 72 ára að aldri. Black kom ellefu lögum inn á topp tíu listann í Bretlandi, þeirra á meðal Anyone Who Had a Heart og You‘re My World.

Bobbi Kristina Brown, dóttir söngkonunnar Whitney Houson, lést í júlí, 22 ára að aldri. Bobbi lést í faðmi fjölskyldunnar en Bobbi hafði verið tengd við öndunarvél um nokkurt skeið eftir að hafa fundist meðvitundarlaus á heimili sínu í janúar fyrr á árinu.



Jackie Collins
, breskur rithöfundir, lést þann 19. september í Los Angeles, 77 ára að aldri. Skáldsögur hennar um líf ríka og fræga fólksins nutu gríðarlegra vinsælda og rötuðu til að mynda allar 32 á vinsældarlista New York Times blaðsins.

Yvonne Craig í hlutverki Batgirl.Vísir/Getty
Yvonne Craig, bandarísk balletdansmær og leikkona, lést í ágúst, 78 ára að aldri. Craig var hvað þekktust fyrir leik sinn sem Batgirl í Batman-þáttunum frá sjöunda áratugnum, og í Star Trek.

Wes Craven, bandarískur hryllingsmyndaleikstjóri, andaðist í ágúst, 76 ára að aldri.Craven gerði meðal annars myndirnar Nightmare on Elm Street árið 1984, með hinu góðkunna illmenni Freddie Kruger í aðalhlutverki, en hann var einnig maðurinn á bak við Scream-kvikmyndaseríuna.

Ellen Albertini Dow, bandarísk leikkona, lést í maí, 101 árs að aldri. Margir muna eftir Dow fyrir hlutverk sitt sem rappandi amma í myndinni The Wedding Singer frá árinu 1998.

Anita Ekberg, sænsk-ítölsk leikkona og fyrirsæta, lést í janúar, 83 ára að aldri. Ekberg er þekktust fyrir hlutverk sitt sem Sylvia í La Dolce Vita, mynd Federico Fellini frá árinu 1960

Günther Grass.Vísir/getty
Günter Grass, þýskur rithöfundur og leikskáld, lést þann 13. apríl, 87 ára að aldri. Hann er þekktastur fyrir bók sína, Blikktrommuna, og hlaut Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 1999.

James Horner, bandarískt tónskáld, lést í flugslysi í Kaliforníu í júní, 61 árs að aldri. Horner samdi tónlistina í fjölda kvikmynda, meðal annars Titanic, Alien, Apollo 13, Field of Dreams, Braveheart og Avatar. Þá samdi hann My Heart Will Go On, titillag Titanic, sem Celine Dion, flutti með eftirminnilegum hætti.

B.B. King, bandarískur blússöngvari, lést í maí, 89 ára að aldri. Rolling Stone setti King í sjötta sæti yfir hundrað bestu gítarleikara heims árið 2011.

Christopher Lee, breskur leikari, féll frá í júní, 93 ára að aldri. Lee átti glæstan kvikmyndaferil og gat sér gott orð í hryllingsmyndum á sjöunda og áttunda, auk þess að leika illmenni í James Bond-myndinni The Man with the Golden Gun, Hringadróttinssögu og Star Wars-myndunum.

Cynthia Lennon, fyrsta eiginkona bítilsins John Lennon, lést þann 1. apríl, 75 ára að aldri. Cynthia og John kynntust þegar þau stunduðu nám við Liverpool College of Art og voru saman á árunum 1962 til 1968. Þau áttu saman soninn Julian Lennon árið 1963.

Henning Mankell.Vísir/Getty
Henning Mankell, sænskur rithöfundur, lést í október, 67 ára að aldri. Hann er þekktastur fyrir bækur sínar um rannsóknarlögreglumanninn Kurt Wallander sem starfaði í bænum Ystad á suðurströnd Svíþjóðar. Mankell skrifaði á fimmta tug skáldsagna og leikrita. Bækur hans hafa selst í um 40 milljónir eintaka og verið þýddar á um fjörutíu tungumál.

Mary Ellen Mark, bandarískur ljósmyndari, lést í maí, 75 ára að aldri. Mark sýndi myndir sínar í mörgum af merkustu galleríum heims og birtust myndir hennar meðal annars í Life, Rolling Stone, The New Yorker, New York Times, and Vanity Fair.

Melissa Mathison, bandarískur kvikmyndahandritasmiður, lést í nóvember, 65 ára að aldri. Hún er hvað þekktust fyrir að hafa skrifað handritið að myndinni E.T. the Extra-Terrestrial frá árinu 1982.

Colleen McCullough, höfundur metsölubókarinnar Þyrnifuglarnir, lést í janúar, 77 ára að aldri. Hin ástralska McCullough skrifaði alls 25 skáldsögur á starfsferli sínum. Bók hennar, Þyrnifuglarnir, kom út árið 1977 og seldist í bílförmum víða um heim.

Anne Meara, bandarísk leikkona og grínisti, lést í maí, 85 ára að aldri. Meara og eiginmaður hennar Jerry Stiller unnu lengi saman og voru meðal annars með innslög undir heitinu Stiller & Meara í spjallþættinum Ed Sullivan Show. Meara var móðir leikarans Ben Stiller og kom til að mynda fram í litlu hlutverki í myndinni Zoolander í leikstjórn Stiller frá árinu 2001. Jerry Stiller lék einnig í myndinni.

Leonard Nimoy, sem fór með hlutverk Mr. Spock í eldri Star Trek myndunum, lést þann 27. febrúar, 83 ára að aldri.

Elena Obraztsova, rússnesk óperusöngkona, lést í janúar, 75 ára að aldri. Obraztsova fór með burðarhlutverk í fjölda óperuhúsa víða um heim á starfsferli sínum og hlaut fjölda viðurkenninga fyrir störf sín.

Maureen O'Hara, írsk-bandarísk leikkona og söngkona, lést ó október, 95 ára að aldri. O’Hara lék í fjölda vestra og ævintýramynda, og vann mikið með leikstjóranum John Ford og leikaranum John Wayne.

Terry Pratchett.Vísir/getty
Terry Pratchett, breskur skáldsagnahöfundur, lést 12. mars, 66 ára gamall. Hann er mest þekktur fyrir bókaseríuna Discworld. Pratchett skrifaði í heildina rúmlega 70 bækur, en fyrsta skáldsaga hans, The Carpet People, var gefin út árið 1971.

Ruth Rendell, breskur glæpasagnahöfundur, lést í maí, 85 ára að aldri. Rendell skrifaði yfir sextíu skáldsögur á ferli sínum og er rannsóknarlögreglumaðurinn Wexford þekktasta persóna höfundarins.

Lizabeth Scott, bandarísk leikkona, lést í janúar, 92 ára að aldri. Scott lék í fjölda „noir“ mynda á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar.

Omar Sharif, egypskur leikari, lést þann 10. júlí, 83 ára að aldri. Hann varð frægastur fyrir leik sinn í kvikmyndunum Arabíu Lawrence og Doktor Sivago.

Sam Simon, einn upphafsmanna þáttanna um Simpsons-fjölskylduna, lést í mars, þá 59 ára að aldri. Árið 1989 þróaði Simon þættina um Simpsons-fjölskylduna ásamt þeim Matt Groening og  James L. Brooks.

Mary Ellen Trainor, bandarísk leikkona, lést í maí, 62 ára að aldri. Trainor lék meðal annars í myndunum Lethal Weapon, Goonies, Die Hard og Forrest Gump.

Tomas Tranströmer, sænskur rithöfundur og Nóbelsverðlaunahafi, lést 26. mars, 83 ára að aldri. Tranströmer hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 2011.

Scott Weiland, fyrrverandi söngvari Stone Temple Pilots, lést í byrjun desember, 48 ára að aldri. Hann lést í Minnesota þegar hljómsveit hans, The Wildabouts, var á tónleikaferðalagi. Weiland var rekinn úr Stone Temple Pilots árið 2013 en hann var einnig partur af hljómsveitinni Velvet Revolver í nokkur ár.

Camille Muffat.Vísir/Getty
Íþróttir

Yogi Berra, ein mesta hafnaboltagoðsögn sögunnar, lést í september, 90 ára að aldri. Berra er einn allra besti leikmaðurinn í sögu hafnaboltans, en hann spilaði nánast allan sinn 19 ára feril með New York Yankees.

Jonah Lomu, einn besti ruðningskappi sögunnar, féll frá í nóvember eftir langa og erfiða baráttu við alvarlegan nýrnasjúkdóm. Lomu lék um árabil með landsliði Nýja-Sjálandi.

Camille Muffat, frönsk sundkona og margfaldur Ólympíuverðlaunahafi, lést í þyrluslysi við gerð sjónvarpsþáttar í Argentínu, í mars, 25 ára að aldri. Hún vann til verðlauna á leikunum í London 2012.

Galina Prozumenshchikova, sundkona sem vann til fimm verðlauna á ÓL 1964, 1968 og 1972 fyrir hönd Sovétríkjanna, lést í júlí, 66 ára að aldri.



Vísindin

John Forbes Nash Jr.
, bandarískur stærðfræðingur, lést í bílslysi í New Jersey í maí. Nash, sem hlaut Nóbelsverðlaun árið 1994, varð 86 ára gamall. Bandaríska kvikmyndin A Beautiful Mind frá árinu með Russell Crowe í aðalhlutverki byggði á ævi stærðfræðingsins.

Ingrid van Houten-Groeneveld, hollenskur stjarnvísindamaður, lést í mars, 93 ára að aldri. Hún vann að því með samstarfsmönnum að finna og kortleggja þúsundir smástirna.

Sjá einnig: Erlendar fréttir ársins 2015: Flóttamenn, hryðjuverk í París, skuldavandi Grikkja, loftslagsmál og fleira




Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.