Erlent

Konungur Sádi Arabíu er látinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Abdullah bin Abdulaziz, konungur Sádi Arabíu.
Abdullah bin Abdulaziz, konungur Sádi Arabíu. Vísir/AFP
Abdullah bin Abdulaziz, konungur Sádi Arabíu lést á sjúkrahúsi í dag. Hann var rúmlega 90 ára gamall, en ekki liggur fyrir hve gamall hann var í raun og veru. Hann hafði verið á sjúkrahúsi í nokkrar vikur vegna sýkingar í lungum. Abdullah varð kóngur árið 2005 en hefur glímt við ýmis heilbrigðisvandamál á undanförnum árum.

Konungurinn var fluttur á sjúkrahús á gamlársdag, en sagður vera á batavegi nokkrum dögum síðar.

Abdullah er talinn hafa fæðst árið 1924 og er einn af tugum sona stofnanda Sádi Arabíu, Abdul-Aziz Al Saud.

Hálfbróðir hans Salman hefur tekið við völdum, en sá er 79 ára gamall. Hann hefur sinnt skyldum Abdulaziz í veikindunum. Á vef Guardian segir þó að efasemdir séu uppi um heilsu hans og er talið að hann sé hugsanlega með heilabilun, eða þjáist af Parkinson sjúkdóminum.

Salman hefur sinnt fjölmörgum skyldum konungs síðustu vikur og hefur þar á meðal verið fulltrúi Sádi Arabíu á fundum og ráðstefnum erlendis. Hann er einnig aðstoðar forsætisráðherra og varnarmálaráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×