Innlent

Það sem þú þarft að vita um veðrið

Birgir Olgeirsson skrifar
Ofsaveðri eða fárviðri er spá á öllu landinu með snjókomu eða slyddu.
Ofsaveðri eða fárviðri er spá á öllu landinu með snjókomu eða slyddu. Vísir/Friðrik Þór
Hættuástandi hefur verið lýst yfir á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum vegna óveðursins sem nú gengur yfir landið. Almannavarnir hafa ráðið fólki allstaðar á landinu frá því að vera á ferli.

Þetta er það sem þú þarft að vita um ástandið:

  • Rafmagn hefur farið af stórum hluta landsins en er komið aftur inn á flestum stöðum
  • Hættustig er á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum
  • Þak fauk af íbúðarhúsi í heilu lagi í Vestmannaeyjum
  • Vindhviður undir Eyjafjöllum eru komnar yfir fimmtíu metra á sekúndu
  • Vegum víða um land hefur verið lokað
Síðast uppfært klukkan 00.06

Rafmagn er komið á aftur á Austurlandi og norðanverðum Vestfjörðum. Unnið er að viðgerð á raflínum að Akureyri en ef það tekst verður rafmagni skammtað. Viðgerðarmenn eru á leið að bilun á Suðausturlandi en von er á rafmagni til notenda út frá Hólum í Hornafirði og Teigarhorni við Djúpavog.

Björgunarsveitir hafa haft í nógu að snúast í kvöld, þegar óveður af fellibylsstyrk fór yfir Ísland. Búið er að sinna ríflega 250 útköllum á landinu. Um 700 björgunarsveitarmenn hafa staðið vaktina.

Rafmagnslaust varð á öllu Austurlandi og Austfjörðum, á norðanverðum Vestfjörðum og á Eyjafjarðarsvæðinu, þar á meðal Akureyri og nærsveitum. Þá er einnig rafmagnslaust á Suðausturlandi frá Tröllaskaga að Kirkjubæjarklaustri. Rafmagni var komið á aftur á Austurlandi um hálf tólf. Unnið er að viðgerðum á öðrum svæðum. Almannavarnir segja að farsímasendar séu víða úti vegna þessa.

Ekkert verður af því að brynvarinn bíll verður sendur að gistiheimili við Lambafell í Öræfum þar sem talið var í fyrstu að karlmaður, sem síðar kom í ljós að var par, væri í sjálfheldu. Samband rofnaði við þau en maðurinn er starfsmaður á gistiheimilinu og var kærasta hans í heimsókn. Nú hefur komið í ljós að parið er í góðu yfirlæti og ekki hætta á ferðum. 

Búið er að loka Suðurbugtinni í Gömlu höfninni í Reykjavík. Einn bátur hefur slitnað frá en hafnsögumaður sem fréttastofan ræddi við sagði fyrirsjáanlegt að fleiri bátar myndu einnig slitna frá. Ekki er hægt að huga að bátunum vegna veðurs.

Meira og minna allir þjóðvegir landsins eru lokaðir eða ófærir. Þetta kemur fram í yfirliti á vef Vegagerðarinnar. Áður en fárviðri skall á landinu eftir hádegi var búið að ákveða að loka helstu vegum og hefur það gengið eftir. Þeir vegir sem eru enn opnir eru margir hverjir hálir.

Tilkynnt hefur verið um sprungnar rúður og fjúkandi þakplötur á höfuðborgarsvæðinu. Þá munu bátar við smábátahöfnina í Ægisgarði eiga erfitt uppdráttar. Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir að yfir 650 manns séu við störf eða klárir í slaginn um land allt.

Ragna Birgisdóttir, íbúi við Smáragötu ofarlega á Heimaey, segist eiga erfitt með að finna réttu orðin til að lýsa veðrinu sem gangi yfir eyjuna. „Ég man eftir óveðrinu 1991 en þetta er af allt öðru kaliberi,“ segir hún. Elliði Vignisson bæjarstjóri segir „afar mikilvægt að fólk sé skynsamt og haldi sig hlémegin í húsum og virði ábendingar lögreglu og björgunarsveitar.“

Bilun hefur orðið í dreifikerfi rafmagns Orkuveitu Reykjavíkur. Rafmagnslaust varð í Úlfarsárdal í Reykjavík. Benedikt Einarsson, forstöðumaður stjórnstöðvar, segir að líklega hafi orðið bilun í háspennulínu.

Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segist aldrei hafa upplifað annað eins veður á Hvolsvelli. Þakplötur séu farnar að fjúka.

Rafmagnslaust er í Vestur-Skaftafellssýslu út frá Prestbakka. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsneti. Sigöldulína 4 og Prestbakkalína 1 leysti út.



Rafmagnslaust varð í Úlfarsárdal.Vísir/Vilhelm
Hættustigi hefur verið lýst yfir í Vestmannaeyjum. Óveðrið skall þar á um klukkan hálf sjö og vindhraði mældist upp í 49 metra á sekúndu á Stórhöfða en 23 metra í Vestmannaeyjabæ.

Um 200 björgunarsveitarmenn eru nú að undirbúa sig fyrir átök á höfuðborgarsvæðinu í kvöld og í nótt. Veðurstofa Íslands gerir ráð fyrir því að veðrið verði hvað verst þar á milli klukkan níu og tólf í kvöld. Veðrið hefur þegar tekið að versna mjög. 

Lokað hefur verið fyrir umferð um Reykjanesbraut til viðbótar við Kjalarnes, Grindavíkurveg og Suðurstrandaveg á suðvesturhorninu. Í Skagafirði er slæmt ferðaveður og flestir vegir lokaðir. Þá eru Siglufjarðarvegur og Ólafsfjarðarmúli lokaðir vegna snjóflóðahættu.

Þak fauk af íbúðarhúsi í Vestmannaeyjum en vindurinn í bænum hefur náð fellibylsstyrk. Búið er að bjarga íbúum hússins út en að öðru leyti liggja litlar upplýsingar fyrir. Í tilkynningu frá Landsbjörgu segir að þakið hafi fokið af í heilu lagi og lent á lóð rétt hjá. Húsið er stórskemmt og ekki talið öruggt fyrir björgunarmenn að fara nálægt því.

Rafmagn er nú farið af í Vík í Mýrdal. Ekki liggur fyrir hve langan tíma viðgerðin mun taka.

Vindhviður undir Eyjafjöllum eru komnar yfir fimmtíu metra á sekúndu og minnst ein mæling sýnir hviðu fara yfir sextíu metra. Þetta sýnir veðurmælir á vef Vegagerðarinnar.

Um 300 björgunarsveitarmenn sinna nú lokunum fyrir vegagerð og lögreglu eða eru í viðbragðsstöðu í húsi. 
Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi hjá Landsbjörg, segir björgunarsveitarfólk hafa sinnt einhverjum verkefnum fyrir austan fjall og á Suðurnesjum í dag auk Vestmannaeyja.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur varað við því að skólastarf á höfuðborgarsvæðinu gæti raskast vegna veðurs á morgun. 

Ríkislögreglustjóri hefur ákveðið að lýsa yfir hættustigi á Suðurlandi og óvissustigi annars staðar á landinu vegna óveðurs, í samráði við alla lögreglustjóra landsins. Í tilkynningu almannavarna segir að veðurspár hafi gengið eftir en vegum hefur víða verið lokað.

Almannavarnir hafa lýst yfir óvissustigi um allt land.Vísir/Vilhelm
Óvissustig einkennist af atburðarás sem er hafin og ætla má að geti leitt til þess að öryggi fólks og/eða byggðar sé stefnt í hættu. Á þessu stigi hefst samráð milli almannavarna og þeirra stofnana sem málið varðar. Athuganir, rannsóknir, vöktun og mat er aukið. Atburðurinn er skilgreindur og hættumat framkvæmt reglulega til að meta stöðuna hverju sinni.

Sjá einnig: Lokanir vegna veðurs

Foreldrar/forráðamenn voru beðnir um að tryggja að börn á höfuðborgarsvæðinu væru sótt fyrir klukkan fjögur síðdegið þannig að þau væru trygg heima þegar veðrið skylli á. Jafnframt voru skólar verið beðnir um að tryggja að börn yfirgefi ekki skólana nema í fylgd með fullorðnum, enda eru þau örugg í skólanum.



Aukinn viðbúnaður er í stjórnstöð Landsnets og viðgerðarflokkar eru í viðbragðsstöðu vegna ofsaveðursins sem spáð er. „Vegna óveðursins má búast við að truflanir geti orðið í raforkuflutningskerfinu víða um land síðdegis og í kvöld. Einkum á það við um Suður- og Suðausturland og síðar Norðaustur- og Norðurland. Á Austfjörðum er ísingarálag að auki sennilegt á línum í kvöld og fram á nóttina. Eins er vaxandi vindálag á línur í Vestfjörðum í kvöld og viðvarandi til morguns,“ segir í tilkynningu frá Landsneti.

Búast má við skafrenningi víða um land.Vísir/Pjetur
Færð og aðstæður

Á vef Vegagerðarinnar er haft eftir veðurfræðingi að það hafi hlánað fyrr en ætla mátti sums staðar suðvestanlands. „Það hefur í för með sér að neðan 100 metra hæðar verður síður skafrenningur með storminum sem spáð er síðdegis,“ segir veðurfræðingur.

Sjá einnig: Lokanaplan Vegagerðarinnar



Horfur eru á mikill snjókomu, sérstaklega Austanlands og á fjallvegum. Í nótt ganga svo skil lægðarinnar norður yfir landið. „Þá gerir væga hláku á láglendi um land allt og lægir mikið norðan- og austanlands,“ segir í ábendingu veðurfræðingsins.

Færð og aðstæður samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni (uppfært 18.40):

Vegna óveðurs sem gengur yfir landið hefur flestum fjallvegum á landinu verið lokað.

Vegurinn um Kjalarnes er einnig lokaður og í  Skagafirði er slæmt ferðaveður eru flestir vegir lokaðir. Siglufjarðarvegur og Ólafsfjarðarmúli eru lokaðir vegna snjóflóðahættu. Vegurinn með Suðausturströndinni lokaður frá Hvolsvelli og austur á Fáskrúðsfjörð. 

Ekki er reiknað með að þessir vegir opni fyrr en á morgun.

Hálka er á flestum öðrum leiðum en flughálka víða á Suðurlandi.

Skýringar á vindhraða

Inni á vef Veðurstofunnar má finna skýringar á mati á vindhraða eftir Beaufort-kvarða en þær má sjá hér fyrir neðan:

Stig   Heiti                m/s                   Áhrif á landi

0       Logn               0-0,2        Logn, reyk leggur beint upp.

1       Andvari           0,3-1,5     Vindstefnu má sjá af reyk, flögg hreyfast ekki.

2       Kul                  1,6-3,3     Vindblær finnst á andliti, skrjáfar í laufi, lítil flögg bærast.

3       Gola                3,4-5,4     Breiðir úr léttum flöggum, lauf og smágreinar titra.

4       Stinningsgola  5,5-7,9    Laust ryk og pappírssneplar taka að fjúka, litlar trjágreinar bærast. Lausamjöll byrjar að hreyfast.

5       Kaldi               8,0-10,7    Lítil lauftré taka að sveigjast. Freyðandi bárur á stöðuvötnum. Lausamjöll hreyfist.

6      Stinningskaldi  10,8-13,8    Stórar greinar svigna. Hvín í línum. Erfitt að nota regnhlífar. Lágarenningur viðvarandi.                                                                                

7      Allhvass vindur 13,9-17,1    Stór tré sveigjast til. Þreytandi að ganga á móti vindi. Skyggni slæmt í snjókomu.

8      Hvassviðri         17,2-20,7     Trjágreinar brotna. Erfitt að ganga á móti vindinum. Menn baksa á móti vindi. Skyggni í snjókomu verður lítið sem ekkert.

9      Stormur            20,8-24,4     Lítilsháttar skemmdir á mannvirkjum. Varla hægt að ráða sér á bersvæði. Glórulaus bylur ef snjóar.  

10    Rok                  24,5-28,4     Fremur sjaldgæft í innsveitum. Tré rifna upp með rótum, talsverðar skemmdir á mannvirkjum.  

11    Ofsaveður        28,5-32,6     Miklar skemmdir á mannvirkjum. Útivera á bersvæði hættuleg. Rýfur hjarn, lyftir möl og grjóti.  

12    Fárviðri             32,7 og yfir      Allt lauslegt fýkur, þar á meðal möl og jafnvel stórir steinar. Kyrrstæðir bílar geta oltið eða fokið. Heil þök tekur af húsum. Skyggni oftast takmarkað, jafnvel í þurru veðri.

Hér fyrir neðan birtast nýjustu upplýsingar frá Facebook-síðu Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Tengdar fréttir

Von á ofsaveðri sem kemur á áratuga fresti

Veðurstofa Íslands spáir ofsaveðri í dag. Á morgun er búist við góðu vetrarveðri. Slysavarnafélagið Landsbjörg biður fólk að vara erlenda ferðamenn við veðrinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×