Innlent

Þak fauk af íbúðarhúsi í Vestmannaeyjum í heilu lagi

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Björgunarsveitarfólk hefur náð öllum íbúum hússins í skjól. Mynd úr safni.
Björgunarsveitarfólk hefur náð öllum íbúum hússins í skjól. Mynd úr safni. Vísir/Róbert Reynisson
Þak fauk af íbúðarhúsi í Vestmannaeyjum en vindurinn í bænum hefur náð fellibylsstyrk. Búið er að bjarga íbúum hússins út en að öðru leyti liggja litlar upplýsingar fyrir. Í tilkynningu frá Landsbjörgu segir að þakið hafi fokið af í heilu lagi og lent á lóð rétt hjá.

„Húsið er stórskemmt og ekki talið öruggt fyrir björgunarmenn að fara nálægt því. Íbúarnir hafa verið fluttir í skjól og verið er að aðvara eigendur nærliggjandi húsa,“ segir í tilkynningunni. Fleiri tilkynningar hafa borist um fleiri laus þök og fokverkefni í Eyjum.

Viðmælandi fréttastofu í Eyjum sagði að fárviðri væri þar núna.

Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur á vakt hjá Veðurstofu, segir að sambandið hafi rofnað á veðurmælingum á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Vindur var kominn upp í fjörutíu metra á sekúndu klukkan 18.00, síðast þegar upplýsingar bárust frá mælinum.

Á flugvellinum mældust 26 metrar á sekúndu núna klukkan 19.00 en Haraldur segir að sá mælir nái ekki öllum þeim vindi sem blæs um eyjarnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×