Erlent

311 hafa látið lífið vegna jarðskjálftans

Skemmdir vegna jarðskjálftans eru víða miklar.
Skemmdir vegna jarðskjálftans eru víða miklar. Vísir/EPA
Björgunarstörf eru nú í fullum gangi í Afganistan og í Pakistan eftir að öflugur jarðskjálfti reið þar yfir í gærmorgun. Að minnsta kosti 311 eru látnir og allt að tvöþúsund slasaðir. Vitað er til þess að 237 séu látnir í Pakistan og 74 í Afganistan og 2.500 heimili eru sögð hafa orðið fyrir skemmdum.

Björgunarsveitir eru nú enn á leið til afskekktra fjallahéraða þar sem enn er óljóst hver áhrif skjálftans hafa verið. Ekki er búist við að þeir komist á svæðið fyrr en síðar í dag. Skriður og lokaðir vegir gera björgunarmönnum erfitt fyrir.

Skjálftinn, sem mældist sjö komma fimm stig, varð á miklu dýpi þannig að áhrif hans voru minni en ella hefði orðið. Á meðal hinna látnu eru tólf skólastúlkur sem tróðust undir þegar skelfing greip um sig í skólanum þeirra í Takhar héraði í Afganistan.

Hér má sjá sjónvarpsfrétt AP frá því í gærkvöldi.
Fregnir hafa borist af því að fólk á svæðinu hafi sofið undir berum himni í nótt í miklum kulda. Forseti Afganistan biðlaði til íbúa að hjálpa til við björgunarstörf.

Ríkisstjóri Badakhshan héraðs segir matvæli og aðrar nauðsynjavörur tilbúnar til flutnings til bágt staddra, en að koma þeim þangað sé ekki auðvelt. Talibanar ráða yfir hlutum héraðsins. Indverjar, Íran og her Bandaríkjanna í Afganistan hafa boðið fram aðstoð sína, en ekki hefur verið farið fram á hana enn.

Árið 2005 létust rúmlega 75 þúsund manns í kjölfar 7,6 stigs jarðskjálfta á milli Indlands og Pakistan og fyrr á þessu ári létust um níu þúsund manns í Nepal.

Upptök skjálftans voru á rúmlega 200 kílómetra dýpi í Hindu Kush fjöllunum.

Tengdar fréttir

Fara ekki til Afganistans af öryggisástæðum

Minnst 200 manns létust í jarðskjálfta í Afganistan og Pakistan. Íslenska alþjóða­björgunarsveitin er tilbúin til að aðstoða á þeim svæðum sem talin eru örugg.

Fjöldi látinna kominn í 180

Samgöngur eru erfiðar á þeim svæðum þar sem skjálftinn var sterkastur og samskiptakerfi eru víða illa farin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×