Innlent

Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin til taks vegna jarðskjálftans í Afganistan

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Alþjóðabjörgunarsveitin býr sig undir útkall.
Alþjóðabjörgunarsveitin býr sig undir útkall. Vísir/Valli
Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin er í viðbragðsstöðu vegna jarðskjálftans sem skók Afganistan og Pakistan fyrr í dag. Er hún reiðubúin til þess að halda út berist neyðarkall en ríkisstjórn Íslands tók ákvörðun um þetta í dag.

Jarðskjálftinn var 7,5 stig og urðu Pakistan og Afganistan verst úti en heildarfjöldi látinna er 180 samkvæmt AP fréttaveitunni. Samgöngur eru erfiðar á þeim svæðum þar sem skjálftinn var sterkastur og eru samskiptakerfi víða illa farin.

Sveitin er nú tilbúin til útkalls og getur hún farið með skömmum fyrirvara. Utanríkisráðuneytið og Alþjóðabjörgunarsveitin vinna nú að undirbúningi og kortlagningu slíkrar ferðar. Fulltrúar frá Sameinuðu þjóðunum meta nú ástandið á jarðskjálftasvæðinu og berist formleg beiðni um aðstoð frá stjórnvöldum í Afganistan og Pakistan getur sveitin haldið út.

Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin var stofnuð árið 1999 og er rústabjörgunarsveit. Hún hefur tekið þátt í margvíslegum alþjóðlegum björgunaraðgerðum en fyrst fór hún til Tyrklands árið 1999 þegar 18.000 manns létust í jarðskjálfta.


Tengdar fréttir

Íslenskir björgunarsveitarmenn tilbúnir

Íslenska alþjóðabjörgunarsveit Slysavarnafélagsins Landsbjargar hefur verið sett á vöktunarstig eftir jarðskjálftann í Tyrklandi. Stjórnendur sveitarinnar fylgjast með ástandinu í gegnum upplýsingaveitur Sameinuðu þjóðanna og fréttir en enn sem komið er hefur lítið borist af staðfestum upplýsingum um skaðann sem skjálftinn olli.

Íslensku björgunarsveitamennirnir fara ekki til Japans

Ljóst er að íslenska alþjóðabjörgunarsveitin kemur ekki til með að fara til Japans að sinna rústaleit vegna jarðskjálftans. Þetta staðfestir Kristinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Landsbjargar, í samtali við fréttastofu.

Fjöldi látinna kominn í 180

Samgöngur eru erfiðar á þeim svæðum þar sem skjálftinn var sterkastur og samskiptakerfi eru víða illa farin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×