Enski boltinn

BBC: Liverpool stefnir að því að kynna Klopp til leiks á föstudaginn

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Klopp var vinsæll hjá stuðningsmönnum Dortmund en hér kveður hann þá eftir lokaleikinn.
Klopp var vinsæll hjá stuðningsmönnum Dortmund en hér kveður hann þá eftir lokaleikinn. Vísir/Getty
Samkvæmt breska ríkismiðlinum BBC vonast forráðamenn Liverpool til þess að ganga frá ráðningunni á Jürgen Klopp fyrir föstudaginn en Liverpool er án knattspyrnustjóra eftir að Brendan Rodgers var sagt upp störfum á dögunum.

Var Rodgers sagt upp á sunnudaginn eftir 1-1 jafntefli gegn erkifjendunum í Everton en eftir að sigur í fyrstu tveimur leikjum tímabilsins hefur gengi Liverpool undanfarnar vikur verið slakt.

Voru enskir miðlar fljótir að greina frá því að aðeins tveir knattspyrnustjórar kæmu til greina fyrir stöðuna, Jürgen Klopp og Carlo Ancelotti og að viðræður við umboðsmenn Klopp hefðu hafist í gær.

Gengu þær vel samkvæmt Ben Smith, blaðamanni BBC en forráðamenn Liverpool vonast til þess að hann verði við stjórn í fyrsta leik eftir landsleikjahlé gegn Tottenham á White Hart Lane þann 17. október næstkomandi.

Klopp er þessa dagana án starfs eftir að hafa hætt störfum sem knattspyrnustjóri þýska félagsins Dortmund í vor eftir sjö ár hjá félaginu. Stýrði hann liði Dortmund til sigurs í þýsku deildinni í tvígang ásamt því að verða bikarmeistari með félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×