Erlent

Umhverfistjón gæti orðið langvarandi

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Öll mannvirki, bifreiðar og annað gjöreyðilagðist í tveggja kílómetra radíus frá sprengingunum.
Öll mannvirki, bifreiðar og annað gjöreyðilagðist í tveggja kílómetra radíus frá sprengingunum. vísir/EPA
Að minnsta kosti fimmtíu manns létu lífið í sprengingunum í Tianjin á miðvikudag. Meira en 700 manns voru fluttir á sjúkrahús og meira en sjötíu af þeim voru taldir lífshættulega slasaðir. Meðal hinna látnu voru sautján slökkviliðsmenn.

Vopnaðir hermenn voru sendir á vettvang ásamt sérfræðingum hersins í viðbrögðum við kjarnorkuslysum og öðrum eiturefnaslysum. Að minnsta kosti þúsund slökkviliðsmenn unnu jafnframt í gær að því að slökkva eldana, sem enn loguðu á svæðinu.

Umhverfissamtökin Greenpeace segja hætt við því að áhrifin af eiturefnum, sem þarna voru geymd, geti áfram valdið fólki á þessum slóðum heilsutjóni og haft margvísleg áhrif á umhverfið.

Sprengingarnar voru tvær. Þær urðu um klukkan hálftólf að kvöldi að staðartíma og liðu einungis fáar sekúndur á milli þeirra. Kínverskir jarðskjálftafræðingar hafa sagt að sprengikrafturinn í fyrri sprengingunni hafi jafngilt þremur tonnum af sprengiefninu TNT, en sú seinni var á stærð við 21 tonn af TNT.

Eyðileggingin var gífurleg. Í allt að tveggja kílómetra radíus frá sprengingunum voru öll mannvirki, bifreiðar og aðrir hlutir gjörónýtir. Þar á meðal voru um tvö þúsund nýjar Volkswagen-bifreiðar.

Sprengingarnar urðu í gámum í vöruhúsi við höfnina, þar sem geymd voru hættuleg efni, þar á meðal ýmis eldfim efni unnin úr jarðolíu eða jarðgasi. Að sögn kínversku fréttastofunnar Xinhua greindust eiturgufur í andrúmsloftinu í 500 metra fjarlægð frá sprengingunum, en þegar komið var í tveggja kílómetra fjarlægð greindust engar slíkar lofttegundir.

Kínversk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd fyrir að gefa fjölmiðlum ekki óheftan aðgang að upplýsingum um það sem gerðist. Stjórnvöld hafa einnig verið gagnrýnd fyrir að hafa ekki nógu gott eftirlit með hættulegum efnum í iðnaði.

Guo Shengkun, almannavarnaráðherra Kína, sagði hins vegar að stjórnvöld verði að draga lærdóm af þessu og gera allt sem hægt er til að koma í veg fyrir að eitthvað svipað gerist aftur.

Fimmtán milljónir manna búa í hafnarborginni Tianjin og þar er ein af mikilvægustu vöruflutningahöfnum landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×