Enski boltinn

Di María segist ekki ætla yfirgefa Manchester United

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ángel di María byrjaði vel en svo fjaraði undan honum.
Ángel di María byrjaði vel en svo fjaraði undan honum. vísir/getty
Ángel di María, leikmaður Manchester United, segir ekkert til í þeim fregnum að hann sé á leið frá félaginu í sumar.

Argentínski landsliðsmaðurinn var keyptur á metfé fyrir síðasta tímabil, en United borgaði Real Madrid 59,7 milljónir punda fyrir kappann.

Hann byrjaði vel á Englandi og skoraði í heildina þrjú mörk og gaf tíu stoðsendingar, en seinni hluta tímabilsins kom hann lítið við sögu og byrjaði Di María ekki leik eftir fjórða mars.

Hann hefur verið sterklega orðaður við Paris Saint-Germain á undanförnum vikum sem og Bayern München en sjálfur segist hann ekki vera að fara neitt.

„Þetta var erfið leiktíð fyrir mig. Ég held að þetta hafi verið svona erfitt því ég var í nýju landi að læra nýtt tungumál. Deildin er líka betri á Englandi heldur en á Spáni þannig ég náði ekki alveg að aðlagast nógu vel,“ segir Di María í viðtali við The Sun.

„Næst á dagskrá hjá mér er að spila í Copa America og síðan kem ég aftur til Manchester og stefni á að gera mitt besta þar,“ segir Ángel di María.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×