Innlent

Dynjandisheiði opnast eftir 5 mánaða ófærð

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá snjómokstri á Dynjandisheiði í maímánuði vorið 1995. Ástand samgöngumála á miðhluta Vestfjarða hefur ekkert breyst síðan.
Frá snjómokstri á Dynjandisheiði í maímánuði vorið 1995. Ástand samgöngumála á miðhluta Vestfjarða hefur ekkert breyst síðan. Mynd/Stöð 2.
Hópur snjóruðningsmanna vopnaður fjórum vinnuvélum, veghefli, jarðýtu og tveimur snjóblásurum, keppist nú við að ryðja snjó af þjóðveginum um Dynjandisheiði, en þessi lykiltenging milli sunnan- og norðanverðra Vestfjarða hefur verið lokuð vegna snjóa frá 5. desember, eða í rúma fimm mánuði.

„Við eigum tvö til þrjúhundruð metra eftir og stefnum að því að komast í gegn síðdegis. Þannig að Dynjandisheiði verður orðin fær, að minnsta kosti vetrarbúnum jeppum, fyrir kvöldið,“ sagði Guðmundur R. Björgvinsson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni, í samtali við fréttastofu í dag.

Í fyrradag tókst að opna Hrafnseyrarheiði en það á við um báðar heiðarnar að klaki er á veginum sem þarf að brjóta upp á næstu dögum. Einnig verður áfram unnið að snjómokstri næstu daga til að breikka akstursleiðina í gegnum snjóstálið, en það er sex til sjö metra hátt á Dynjandisheiði og allt að þrettán metra hátt á Hrafnseyrarheiði, að sögn Guðmundar. 

Vestfirðingar hafa reglulega kallað eftir samgöngubótum til að rjúfa þá einangrun sem er yfir vetrarmánuði milli byggða á sunnan- og norðanverðum Vestfjörðum, meðal annars þáverandi forseti bæjarstjórnar Ísafjarðar hér í viðtali á Stöð 2 fyrir þremur árum.


Tengdar fréttir

Ákall til Alþingis um Dýrafjarðargöng

Vestfirðingar safna nú undirskriftum undir ákall til stjórnvalda um að Dýrafjarðargöng fái forgang og fram fyrir Vaðlaheiðargöng og Norðfjarðargöng. Bíll komst yfir Hrafnseyrarheiði í dag í fyrsta sinn í fjóra mánuði. Ákall um Dýrafjarðargöng er yfirskriftin sem lýsir vel hve heitt samgöngumálin brenna á Vestfirðingum.

Útlendingar aldrei séð aðra eins vegi

Vondir vegir koma í veg fyrir að unnt sé að byggja upp heilsársferðaþjónustu á Vestfjörðum, segja eigendur Hótels Flókalundar, sem aðeins hafa opið yfir sumartímann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×