Starfsmenn Orkubús Vestfjarða í Mjólkárvirkjun eru meðal þeirra sem eiga hvað erfiðast með að komast til vinnu. Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði eru ófærar mánuðum saman og eina leiðin í virkjunina þessar vikurnar er að starfsmennirnir sigli á báti frá Bíldudal, segir Kristján Haraldsson orkubússtjóri.
Það virkar kannski einfalt að aka frá Þingeyri 33 kílómetra í botn Arnarfjarðar en þegar vegirnir eru ófærir, eins og verið hefur frá áramótum, þarf að taka 500 kílómetra aukakrók; um Djúp, Hólmavík, suðurfirðina og til Bíldudals og sigla svo 20 kílómetra með báti. Ástæðan er fannfergi á Dynjandisheiði og Hrafnseyrarheiði, sem þýðir að þær gætu verið lokaðar fram á vor.

Oddviti Tálknafjarðar, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, sem við hittum á Ísafirði á leið á fund, er enn eitt dæmið um þessar ótrúlega erfiðu samgöngur innan Vestfjarða. Í stað þess að aka þjóðveginn beint til Ísafjarðar varð hún að taka áætlunarflug frá Bíldudal til Reykjavíkur og fljúga síðan þaðan til Ísafjarðar.
„Ég fer að heiman á hádegi á sunnudegi til Reykjavíkur. Þaðan tek ég flug í morgun, á mánudagsmorgni, og sit fundinn. Flýg til Reykjavíkur í kvöld og svo aftur heim á þriðjudegi. Þannig að það fara þrír dagar í þennan eina fund hjá mér,” sagði Eyrún.
Jarðgöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar og vetrarvegur um Dynjandisheiði, er það sem Vestfirðingar hrópa á. Kristján orkubússtjóri er farinn að gera sér vonir um að hægt verði að aka í gegn árið 2018.
Eyrún segir samgöngunar hafa versnað. Þegar hún flutti á Tálknafjörð fyrir 22 árum hafi samgöngurnar verið mun betri. Bæði var áætlunarflug milli Bíldudals og Ísafjarðar og einnig var hægt að fá far með strandferðaskipum milli fjarða.