Innlent

Ungir Jafnaðarmenn: Fordæma einræðistilburði og aðför að þingræðinu

Atli Ísleifsson skrifar
Frá Brussel.
Frá Brussel. Vísir/Getty
Ungir jafnaðarmenn fordæma þá „einræðistilburði og aðför að þingræðinu sem ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks varð uppvís að í dag“.

Þetta kemur fram í ályktun sem samtökin sendu frá sér nú undir kvöld, vegna samþykkt ríkisstjórnarinnar að slíta aðildarviðræðum Íslands að ESB. „Það er forkastanlegt að ráðherra taki sér alvald til að slíta einhliða viðræðum Íslands við Evrópusambandið.

Ríkisstjórnin var gerð afturreka með þingsályktun um sama efni á síðasta ári, eftir mörg þúsund manna ítrekaða mótmælafundi og undirskriftasöfnun þar sem rúmar 50.000 undirskriftir söfnuðust til að mótmæla viðræðuslitum.

Krafa mótmælenda var m.a. sú að ríkisstjórnin stæði við skýr loforð sín um þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda skyldi áfram viðræðum við ESB.

Í stefnu Sjálfstæðisflokksins sem birt var fyrir kosningarnar 2013 stendur orðrétt: “Þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu” og álíka vilyrði fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu heyrðust einnig frá Framsóknarflokknum.

Með gjörningi sínum í dag hefur ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins endanlega svikið það loforð, hunsað kröfu 50.000 kosningabærra manna og sniðgengið og vanvirt Alþingi.

Enn er í gildi þingsályktun frá 2009 þess efnis að íslensk stjórnvöld skuli hefja viðræður við Evrópusambandið og kynna tilbúinn samning fyrir þjóðinni.

Með einhliða aðgerð utanríkisráðherra nú gengur hann þvert á samþykktir þingsins og alls sem getur kallast góð stjórnsýsla.

Þetta er sérlega afleitt, þar sem að það eina sem næst fram með því að slíta viðræðunum með þessum hætti, er að fækka framtíðarmöguleikum Íslands,“ segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir

"Ánægjulegt og eðlilegt“

Jón Bjarnason, formaður Heimssýnar, segir engu pólitísku afli detta í hug að fara í sama "skollaleik“ og farið var í 2009.

Ísland ekki lengur umsóknarríki ESB

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að hún hafi ekki í hyggju að taka upp aðildarviðræður við Evrópusambandið á nýjan leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×